Lítilsháttar hreyfing mældist í dag í hlíðinni á Seyðisfirði milli skriðusársins frá desember 2020 og Búðarár. Hreyfingin er mismikil eftir því hvar mælar Veðurstofu eru staðsettir. Svæðið sem um ræðir er talsvert sprungið og því talið líklegra að það muni falla í smærri brotum fremur en að það fari allt í einu.
Frá þessu greinir lögreglan á Austurlandi í tilkynningu. Segir hún að enn sé verið að meta aðstæður í firðinum og að niðurstaðna frá Veðurstofunni megi vænta eftir helgi.
„Unnið er að mati á því hvort leiðigarðar og safnþró taki við því efni sem óstöðugt er í hlíðinni, jafnvel þó það fari allt í einu. Niðurstaða þess og frekara mat á aðstæðum ætti að liggja fyrir strax eftir helgi,“ skrifar lögreglan.
Engar aðrar hreyfingar hafi mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar.
Herðubreið verður opin á morgun frá klukkan 14 til 16 eins og verið hefur, og eru allir sagðir velkomnir þangað. Ekki sé gert ráð fyrir að íbúar geti snúið til síns heima fyrr en eftir helgi. Öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið sé óheimil.