Íbúar í Neðra-Breiðholti hafa miklar áhyggjur af breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 sem varða Mjódd og Norður-Mjódd. Þeir hafa mótmælt tillögu sem gerir ráð fyrir byggð þar sem leyfileg byggingarhæð væri 5-8 hæðir. Íbúar telja þetta of hátt og vilja að byggingar á reitnum séu lækkaðar í flokkinn fimm hæðir eða lægri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Við sem búum næst þessu, í raðhúsunum fyrir ofan Mjóddina og í vestanverðum Stekkjum, erum ekki sátt við þetta og finnst þetta ekki í takt við núverandi hverfisskipulag. Þarna allt í kring eru tveggja hæða hús og það er byggt í halla. Svo það eru allir með útsýni og sól í garðinum fram eftir degi,“ segir Gunnhildur Karlsdóttir, íbúi í hverfinu.
Húsin í hverfinu eru flest 2-3 hæðir en á því er ein undantekning og það er níu hæða blokkin Þangbakki við Mjódd.
Hafa íbúar áhyggjur af skuggavarpi sem skapist við uppbygginguna sem og tapi á útsýni. Gunnhildur segir íbúa á svæðinu hafa keypt eignir miðað við ákveðnar forsendur og að þessum breytingum á skipulagi fylgi forsendubrestur.
„Við viljum fá þetta lækkað niður í næsta flokk fyrir neðan sem eru fimm hæðir og undir. Að fara að byggja 5-8 hæðir, með möguleika á að byggja tvær aukahæðir á stöku stað, það er náttúrulega algjörlega galið. Þetta er hverfi sem er einstaklega vel skipulagt og fjölskylduvænt. Okkur finnst þetta engan veginn í takt við byggðina sem er þarna núna.“
Gunnhildur nefnir að í aðalskipulaginu komi fram að hæð húsa skuli almennt ákvarðast af yfirbragði aðliggjandi byggðar. „Það er alls ekki verið að gera það þarna. Við höfum áhyggjur af þessu og við vildum pressa á borgina með þetta.“
Íbúar stóðu fyrir undirskriftasöfnun í þeim húsum sem yrðu fyrir mestum áhrifum af byggingu í Mjódd. Viðtökurnar voru góðar og af þeim sem heima voru þegar gengið var í hús skrifuðu íbúar 96% heimila undir. Kolbrún Baldursdóttir hjá Flokki fólksins hefur síðan lagt fram bókanir og fyrirspurnir um málið á fundum skipulags- og samgönguráðs undanfarið.