Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að dómarar við Hæstarétt hafi langmest um skipun nýrra dómara að segja, þótt dómsmálaráðherra skipi þá að endingu.
Hann kallar dómara við Hæstarétt „dómaraelítu“ og vill að ferlið við skipun dómara verði lýðræðislegra.
„Þannig eru bein dæmi um að við mat á umsækjendum sé breytt um viðmiðanir milli ára í því skyni að hefja vini og kunningja upp yfir aðra sem sitjandi dómurum kann að vera í nöp við,“ skrifar Jón Steinar.
Jón Steinar kallar svo eftir úrbótum og reynir að vekja formenn stjórnmálaflokkanna til vitundar.
„Hvernig stendur á því að stjórnmálaflokkarnir bregðast ekki við augljósum annmörkum á lagareglum um dómstóla, þó að ítrekað hafi verið bent á þá með þeim hætti að enginn þarf að efast? “ spyr Jón Steinar í upphafi greinarinnar og kallar eftir því að um þetta verði kveðið í væntanlegum stjórnarsáttmála.
Þó spáir hann því, síðar í greininni, að ekki verði stafkrókur um þessi mál í væntanlegum sáttmála.
Jón Steinar er enda ekki að kalla eftir úrbótum um skipan dómara í fyrsta skipti, það hefur hann raunar gert um árabil í ræðu og riti, eins og hann lýsir sjálfur í greininni.
Nú síðast benti hann á þetta í hlaðvarpi sínu, Það skiptir máli, sem finna má á hlaðvarpsvef mbl.is.
Þar segist hann vilja gera ferlið við skipan dómara lýðræðislegra, með þeim hætti að Alþingi verði að samþykkja skipun einstakra dómara við Hæstarétt.
Hann leggur það m.a. til að dómarar verði kallaðir fyrir þingnefnd þar um, eða þingið í heild sinni, þannig að kjörnir fulltrúar geti spurt dómarakandídata að hverju sem er, t.d. um skoðanir þeirra á hinum ýmsu lögfræðilegu álitamálum.
Jón Steinar segist vilja að farið verið að fordæmi Bandaríkjamanna í málinu og vill bjóða fjölmiðlum að fylgjast með yfirheyrslum þingsins yfir dómurum. Þannig segir hann að sjónvarpa mætti frá slíkum viðburði, þannig að landsmenn allir geti glöggvað sig á hvaða mann væntanlegur dómari við Hæstarétt hefur að geyma.