Segir hjálpsemi Íslendinga hafa bjargað lífi sínu

Tovah tók þessa mynd innan úr rútunni þegar viðbragðsaðilar komu …
Tovah tók þessa mynd innan úr rútunni þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Allar rúður brotnuðu og greip um sig mikil skelfing meðal farþeganna fyrst eftir að slysið varð. Ljósmynd/Tovah Jacobson

Bandarískur ferðamaður, sem var undir stýri í smárútu sem fauk út af þjóðveginum við Dyrhólaey í gær og valt, segir að íslensk samkennd og hjálpfýsi eigi sér engan líka.

Hún þakkar viðbragðsaðilum lífsgjöfina og segir að Íslendingar megi vera stoltir. 

„Ég segi bara fyrir hönd allra sem voru um borð í rútunni, takk Íslendingar! Samfélagið hérna og hvernig allir standa saman og gæta hver að öðrum. Bara það að við séum á lífi er ótrúlegt, ég veit ekki hvar við værum og hvort við værum á lífi ef það væri ekki fyrir allt fólkið sem kom og aðstoðaði okkur svo fúslega,“ segir Tovah Jacobson við mbl.is.

Hún segist hafa ferðast víða, en aldrei hafi hún komist í tæri við álíka góðmennsku og á Íslandi.

Aðstæður á vettvangi voru erfiðar, eins og Oddur Árnason yfirlögregluþjónn …
Aðstæður á vettvangi voru erfiðar, eins og Oddur Árnason yfirlögregluþjónn lýsti fyrir mbl.is í gær. Ljósmynd/Tovah Jacobson

Mun aldrei gleyma hjálpsemi Íslendinga

Tovah segir að hún og sjö aðrir ferðamenn hafi verið um borð í rútunni þegar hún fauk af veginum og valt út í nærliggjandi skurð. Sem betur fer sluppu allir með skrámur, utan eins farþega sem brákaðist á baki. 

Hún lýsir því að innan skamms hafi um 25 manns verið komnir á vettvang, viðbragðsaðilar og sömuleiðis vegfarendur sem gerðu hlé á ferðum sínum til þess að hlúa að ferðamönnunum. 

„Þau héldu uppi teppum fyrir gluggunum, sem brotnuðu allir þegar rútan valt. Bara það skýldi okkur vel frá hífandi roki og grenjandi rigningu. Það voru allir svo hjálpsamir að við áttum ekki orð. Ég mun aldrei gleyma þessu.“

Tovah og ferðafélagar hennar sjö.
Tovah og ferðafélagar hennar sjö. Ljósmynd/Tovah Jacobson

Löggan gerði allt til að hjálpa

Tovah segir að hjálpsemi lögregluþjóna hjá lögreglunni á Suðurlandi hafi komið henni einna mest á óvart. Í Bandaríkjunum sé viðtekin venja að hræðast laganna verði og því kom henni í opna skjöldu að mæta hlýlegu fasi íslenskra lögreglumanna. Hún ók rútunni og óttaðist að hún lenti í vandræðum, en svo var aldeilis ekki. 

„Lögreglumennirnir voru svo ótrúlega góðir. Í Ameríku lærir maður að óttast lögregluna og að þeir séu ekki þar til að hjálpa okkur og við ræddum það meira að segja á milli okkar að það sé vanalega minna en eitt morðmál á ári á Íslandi, en hversu margir deyja af hendi lögreglunnar í Bandaríkjunum á hverju ári? Ég sagði við lögreglumennina að ég væri hrædd og þeir sögðust skilja það, gáfu mér samband við lögfræðing og eftir það voru þeir einstaklega góðir við mig,“ segir Tovah og lýsir því hvernig lögreglumennirnir sneru til baka á slysstað, klukkustundum eftir að það varð, og sóttu bakpoka fullan af seðlum og vegabréfum, sem hafði þeyst út í skurð.

Bað þá enginn um að gera þetta

„Vegabréfin höfðu legið úti í skurði og voru rennblaut. Þeir keyrðu í einhverja klukkutíma og settu vegabréfin á mælaborðið svo þau þornuðu. Það bað þá enginn um að gera þetta og þetta sýnir bara manngæsku Íslendinga.“

Eftir að gengið var úr skugga um að það væri í lagi með alla ferðamennina voru þeir flestir ferjaðir á hótelið við Bláa lónið þar sem vel var tekið á móti þeim. Viðbrögð hótelrekenda voru ótrúleg, að sögn Tovah, og voru allir ferðamennirnir færðir í betri herbergi á lúxushluta hótelsins. 

„Við grínuðumst með hvort við hefðum í raun og veru dáið og farið til himna,“ segir Tovah og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert