Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefur synjað ósk Festar hf., eiganda bensínstöðvar N1 við Ægisíðu, um leyfi til að rífa skyggni stöðvarinnar. Segir í umsókn Festar að skyggnið sé orðið lélegt. Það er mikið að vöxtum því niðurrifið yrði alls 254 fermetrar. Olíufélagið Esso reisti stöðina á sínum tíma, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í umsögn verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa segir að ekki liggi fyrir skýrar uppbyggingaráætlanir á lóðinni og því sé ekki hægt að verða við óskum um niðurrif á núverandi húsnæði, að hluta eða öllu leyti.
Skipulagsfulltrúi muni endurskoða afstöðuna þegar skýrar áætlanir liggja fyrir um uppbyggingu til samræmis við nýlegt samkomulag Reykjavíkurborgar og þriggja rekstraraðila bensínstöðva um nýtt hlutverk bensínstöðvalóða í þeirra eigu.
Tilkynnt var í júní sl. að Festi hf. annars vegar og Reykjavíkurborg hins vegar hefðu gert með sér samkomulag um frekari uppbyggingu og breytta nýtingu á lóðinni Ægisíðu 102.
Á lóðinni stendur 513,5 fermetra bensínstöð með fjórum dælum auk 824 m2 þvottaaðstöðu og afgreiðslu.