Grímseyingar eru staðráðnir í að reisa nýja kirkju í Miðgörðum í stað þeirrar sem brann til grunna á dögunum, að sögn Alfreðs Garðarssonar, formanns sóknarnefndar. Hann segir að Grímseyingar finni fyrir miklum samhug frá fólki um allt land og margir hafi látið peninga rakna til nýrrar kirkjubyggingar.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Að sögn Alfreðs hafa safnast um tíu milljónir króna, en gamla kirkjan og innanstokksmunir voru tryggð fyrir rúmar 30 milljónir króna. Margir hafi haft samband til að votta Grímseyingum samúð og láta í ljós von um að ný kirkja verði byggð fyrir Miðgarðasókn í þessu nyrsta byggðarlagi á Íslandi. Alfreð segir Grímseyinga þakkláta fyrir stuðninginn, sem þeir hafi fundið fyrir.
Hann segir að ekkert verði aðhafst í haust. Næsta vor liggi fyrir að moka grunninum í burtu en hann sé krosssprunginn eftir hitann í eldsvoðanum. Á þessum tímapunkti sé ekki farið að ræða hvernig kirkja verði byggð, annað en að hún verði á svipuðum stað og gamla kirkjan. Um upptök brunans vísar Alfreð á rannsókn lögreglu og segir að sjónir manna hafi beinst að því að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni.