Stjórnmálafólk er á meðal þeirra fjölmörgu sem hafa tjáð sig um flutning Birgis Þórarinssonar úr Miðflokknum í Sjálfstæðisflokkinn. Fyrrverandi flokssystkini Birgis hafa fordæmt ákvörðun hans og þá hefur fólk í öðrum flokkum velt vöngum vegna atburðarásarinnar sem fór af stað í gærkvöldi þegar Birgir tilkynnti formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, ákvörðun sína.
Friðjón Friðjónsson, sem bauð sig fram í alþingiskosningunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn en komst ekki inn á þing, virðist ekkert sérstaklega ánægður með liðsaukann en bindur vonir við að Birgir muni samsama sig Sjálfstæðisflokknum.
Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, veltir málinu einnig fyrir sér.
Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í sveitarfélaginu Árborg, gagnrýndi Birgi í aðsendri grein til Vísis. Þar líkir hann Birgi við trúboða sem iðkar ekki trúna sem hann boðar.
„Undirritaður og helsti bandamaður þingmannsins á síðasta kjörtímabili frétti ekki af þessum hugrenningum og útspili fyrr en eftir að sjálfsákvörðunin var tekin og framkvæmd. Hvar eru samviskan og heilindin í því?“ skrifar Tómas.
Þá hafa Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, formaður innra starfs Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður flokksins, stigið fram og sagt ákvörðun Birgis svik við flokkinn.
Birgir sagði í samtali við Morgunblaðið að rekja mætti ákvörðun hans allt aftur til uppákomunnar á Klaustri þar sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins sátu saman og létu ýmis umdeild ummæli falla um aðra þingmenn og fleiri.
Stefán Pálsson sagnfræðingur bendir á það á Twitter að Birgir hafi fordæmt Klaustursmálið á sínum tíma. Birgir var ekki staddur á Klausturbar þegar samræðurnar þar, sem fóru fyrir brjóstið á mörgum, áttu sér stað.