„Oft eru þessar árásir ansi grófar“

Algengt er að fórnarlömb og gerendur þekkist ekki.
Algengt er að fórnarlömb og gerendur þekkist ekki. mbl.is/Ófeigur

Óvenju mikið hefur borið á því í Hafnarfirði og Garðabæ í haust að börn beiti önnur börn grófu ofbeldi. Í sumum tilfellum er um að ræða hrottalegar árásir þar sem hópur ræðst á einn einstakling. Myndböndunum af árásunum er svo oft dreift á samfélagsmiðla. Þetta staðfestir lögreglan, en það er tilfinning Sævars Guðmundssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Hafnarfirði og Garðabæ, að ástandið hafi verið óvenju slæmt frá því síðsumars.

Svo virðist sem einhver „unglinga- og ungmennapirringur,“ sé að gerjast, eins og Sævar orðar það. Vandinn sé þó ekki endilega bundinn við hans lögregluumdæmi, þó þeir hafi orðið varir við aukningu.

„Þetta virðist vera dreift um svæðið og ekki bundið einhverju ákveðnu svæði eða bæjarfélagi. Þetta hefur verið mikið tengt krökkum á vespum eða rafhlaupahjólum sem fara á milli hverfa og bæjarfélaga jafnvel og gera einhvern óskunda. Það hefur verið svolítið af þannig málum.“ Algengt sé að fórnarlömb og gerendur þekkist ekki og því sé oft litlar upplýsingar að hafa þegar gerendur eru á bak og burt. „Oft eru þessar árásir ansi grófar. Oft á tíðum eru þetta mjög ljótar árásir þó þetta séu bara unglingar eða ungir krakkar. Þau gera sér enga grein fyrir afleiðingunum. Þetta eru jafnvel höfuðáverkar, það er jafnvel verið að sparka í höfuð, sem er mjög alvarlegt,“ segir Sævar.

Misþyrmt og látinn sleikja skó gerenda

12 ára gamall sonur Inga Björns Sigurðssonar varð fyrir því fyrir rúmri viku að eldri drengir réðust á hann, þar sem hann lék sér í fótbolta á skólalóð Hafnarfirði, og beittu hann alvarlegu ofbeldi. Ingi Björn segir að jafnöldrum hafi verið verulega brugðið og að foreldrar í hverfinu séu uggandi eftir árásina, enda virðist sambærileg mál ítrekað vera að koma upp, líkt og lögreglan hefur staðfest.

Ingi Björn segir í raun engan aðdraganda hafa verið að árásinni á son hans. „Þetta voru strákar sem hann hafði aldrei séð. Þeir heimtuðu að fá að vera með í fótbolta og börnin létu undan þrýstingnum. En þeir voru ekki komnir til þess að spila fótbolta heldur til þess vera með leiðindi og læti. Fyrir að virðist tilviljun tóku þeir drenginn minn fyrir. Þeir byrjuðu að fella hann, spörkuðu í magann á honum, höfuðið og bringuna. Hræktu á hann og báðu hann um að sleikja skóna sína,“ segir Ingi Björn. Málið var strax tilkynnt til lögreglu.

„Eftir ég fór að grennslast fyrir og að aðrir foreldrar fóru að koma að máli við mig, þá hef ég heyrt sögur um grófar árásir, þar sem barefli voru notuð, og varanlegan skaða eins og tannbrot.“

Þá hefur sonur Inga Björns áður orðið fyrir árás, en í sumar var honum ítrekað hótað barsmíðum á samfélagsmiðlum. „Þetta er ekki fyrsta skipti sem að drengurinn minn lendir í árás á síðustu mánuðum, þar sem margir ráðast á hann með það eina markmið að reyna að niðurlægja hann. Einnig höfum við heyrt dæmi um að það séu tekin myndbönd af þessum ofbeldisverkum sem er síðan deilt inn á hópa á samfélagsmiðlum,“ segir Ingi Björn.

Stafrænn stimpill fylgir þér út lífið

„Það er verið að níðast á barni, taka það upp og senda á milli. Þeir eru klárlega ekki að fatta upp á þessu sjálfir. Þetta er að koma annars staðar frá. Við vitum ekkert alveg hvað börnin okkar eru að horfa á á samfélagsmiðlum. Ekkert foreldri getur vitað það. Við erum mjög varnarlaus gagnvart þessu. Við foreldar verðum að taka samtalið við börnin okkar, fá að vita hvað ber fyrir augu þeirra, hvað þau eru að setja inn á miðlana og hverju þau eru að deila. Börn sem eru að taka upp ofbeldi upp eru líka gerendur og það sama á við þá sem deila áfram.” 

mbl.is/Ómar

Þá bendir Ingi Björn á að gerendur sem taki upp myndbönd og birti á samfélagsmiðlum geti gert ráð fyrir því myndböndin verði aðgengileg á netinu um ókomna tíð. „Þú getur gengið að því að þegar þú hefur snúið við blaðinu, bernskubrekin búin, þá er til myndband af þér að níðast á einhverju barni. Það verður til stafrænn stimpill af gjörðum þínum sem barn sem mun fylgja þér í gegnum lífið. Þegar þú ert atvinnuleit, þegar kemur að makavali og svo verður örugglega ekkert spes að útskýra þessa hegðun fyrir börnunum þínum í framtíðinni.“

Sævar tekur undir þetta, erfitt sé að eiga við það þegar myndbönd eru komin í dreifingu á netinu. Það sem fari á netið verði ekki tekið til baka. „Það er allt komið á netið um leið. Við fáum líka öðru hverju ábendingar um myndefni á netinu þar sem krakkar og unglingar eru að berjast. Þá reynum við að vinna það áfram og þó það berist engin kæra þá tökum við upp sjálfstæða rannsókn í slíkum málum. Það gerist alltaf af og til.“ Hann segir að oft sé um að ræða ósakhæf börn undir 15 ára aldri og í þeim tilfellum verði ekki úr lögreglumál. Þá sé hins vegar unnið með barnavernd viðkomandi sveitarfélags.

Samtal foreldra og barna besta forvörnin

Ingi Björn og Sævar eru sammála um að mikilvægt sé að foreldrar taki ábyrgð á börnum sínum. Þeir geti ekki ætlast til að skólar eða íþróttafélög sjái um að setja börnunum mörk eða sjái um alla forvarnarvinnu. Hvað þá áhrifavaldar sem börnin fylgjast með á samfélagsmiðlum. „Það græðir enginn á ofbeldi og oft á tíðum elur ofbeldi af sér ofbeldi. Það er á okkar ábyrgð að segja að það sé komið nóg. En hins vegar veit ég ekki hvaða farveg er best að nýta til þess að reyna að hafa áhrif og beita sér fyrir jákvæðum umbreytingum,“ segir Ingi Björn.

Að mati Sævars mætti forvarnarvinna gegn ofbeldi vera meiri, ekki bara hjá lögreglunni, heldur líka hjá skólum. „Ég held að forvarnir séu  mikilvægar og ekki síst varðandi svona, því þetta er auðvitað háalvarlegt.“ Forvarnarvinna foreldra vegi þungt.

„Maður veltur fyrir sér þessu samtali við börnin. Hvar eru foreldrar þessara barna? Eru þeir ekki með neinar upplýsingar um hvað er að gerast? Það er auðvitað besta forvörnin að foreldrar ræði við börn sín. Ef þú ert foreldri barns sem er grunað um að hafa ráðist á félaga sína, þá talar þú auðvitað við barnið þitt og leitar þér kannski aðstoðar hjá barnavernd. Hlutverk foreldra er ríkt í þessu. Það er ekki bara hægt að vísa á skólann eða lögguna með forvarnir. Foreldrar þurfa að ræða við sín börn.“

Þeysa á milli staða og berja einhvern 

Líkt og áður sagði virðast gerendur gjarnan nýta sér rafmagnshlaupahjól eða vespur til að flýja af vettvangi og því erfitt að hafa uppi á þeim. „Oft er þetta þannig að það er lítið um upplýsingar, en stundum er vitað hverjir eru á ferðinni. Oft eru þetta einhverjir sem enginn veit hver er og þeir þrusa á sínum tækjum á milli staða og bæjarfélaga og berja einhvern á skólalóð, svo eru þeir bara farnir.“

Þegar fórnarlömbin viti engin deili á gerendum bendi það til þess að þeir séu ekki úr sama hverfi eða sama skóla, jafnvel ekki úr bæjarfélagi „Við höfum heyrt um dæmi núna í haust við verslunarmiðstöðina Fjörð þar sem krakkar safnast oft saman. Þá eru að koma krakkar úr Reykjavík og þá verður einhver „fightingur“.

Lögreglan reynir að hafa eftirlit

Hann segir lögregluna reyna að hafa eftirlit með þeim stöðum þar sem svona mál koma upp, en það sé gjarnan á kvöldin. „Það eru oft skólarnir, skólasvæðin og skólalóðirnar. Einhverjir svona staðir þar sem krakkar hittast á, jafnvel við verslunarmiðstöðvar og annað. Það kom hérna móðir stráks í gær sem hafði orðið fyrir árás inni í Kringlu. Það er einhvern veginn allsstaðar einhver pirringur. Þetta virðist vera gegnum gangandi á höfuðborgarsvæðinu öllu,“ segir Sævar

Málið í Kringlunni hafi verið þannig að fórnarlambið þekkti gerendurna ekki neitt. „Þetta var týpískt dæmi um einhvern hóp sem réðist að honum og lamdi. Það er ekkert vitað hverjir það voru það er svo oft þannig.“

Sævar segir það ömurlega þróun að börn geti ekki verið örugg í sínu nærumhverfi. Það sé ljóst að ofbeldið sé ekki bundið við einhverja ákveðna einstaklinga eða hópa heldur virðist þetta vera hluti af stærra og meira vandamáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert