Jarðskjálfti af stærð 3 við Öskjuvatn

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jarðskjálfti af stærð 3 mældist um 7 kílómetra norðvestur af Öskjuvatni klukkan 8:23 í morgun. Skjálftinn varð á um 2,6 kílómetra dýpi. Engar tilkynningar hafa borist um að fólk hafi fundið fyrir honum í byggð og þá hafa engir eftirskjálftar mælst. 

„Við höldum áfram að fylgjast með,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Ekki ólíklegur atburður ef kvika er að troða sér upp

Nokkuð hefur verið um skjálfta við eldstöðina Öskju að undanförnu en um er að ræða stærsta skjálfta sem orðið hefur á svæðinu í nokkurn tíma, alla vega þegar horft er aftur til maímánaðar.

„Það er mjög algengt að það sé skjálftavirkni á þessu svæði og það hefur verið mikið um virkni austur af Öskjuvatni. Það er líka alltaf á þessu norðvestursvæði. Skjálftinn varð á svipuðu dýpi og þessi kvikuinnskot hafa verið svo við fylgjumst með því hvort það komi fleiri skjálftar eða ekki,“ segir Lovísa.

Segir þessi skjálfti okkur eitthvað um stöðuna?

„Í raun ekki eins og er akkúrat núna. Það er ekkert ólíklegt að svona skjálftar komi ef kvikan er að troða sér þarna upp,“ segir Lovísa.

Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert