Álagið á hjúkrunarfræðinga margfalt

Helga Rósa Másdóttir hjúkrunardeildarstjóri bráðamóttöku segir flæðisvanda skapa viðbótarálag á …
Helga Rósa Másdóttir hjúkrunardeildarstjóri bráðamóttöku segir flæðisvanda skapa viðbótarálag á starfsfólk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flæðis­vandi af bráðamót­tök­unni skap­ar marg­falt viðbótarálag á starfs­fólk deild­ar­inn­ar, að sögn Helgu Rósu Más­dótt­ur, hjúkr­un­ar­deild­ar­stjóra bráðamót­töku. Tel­ur hún vand­ann ekki liggja í skorti á starfsfólki á bráðamót­tök­unni held­ur sé deild­in ein­fald­lega að sinna verk­efn­um sem eiga heima annars staðar.

Á bráðamót­töku eru 36 rúm­stæði og leita að jafnaði um 100 bráðveikir einstaklingar á sólarhring þangað. Því er ljóst að greining á vanda og ákvörðun um útskrift eða innlögn þarf að liggja fyrir á nokkrum klukkustundum svo alltaf sé laust pláss fyrir næsta sjúkling.

Flæðisvandi er þegar ákvörðun um innlögn liggur fyrir en sjúklingur kemst ekki inn á viðeigandi legudeild. Að sögn Helgu liggja á bráðamóttökunni 20 og upp í 44 sjúk­ling­ar að jafnaði í bið eftir plássi á legudeild. Nem­ur sá fjöldi sjúk­linga tveim­ur til þrem­ur legu­deild­um. 

„Það að sjúklingar í bið eftir innlögn fylli öll rúmstæði bráðamóttökunnar gerir okkur ókleyft að taka á móti nýjum bráðveikum sjúklingum með öruggum hætti.

Viðbótarálag á starfs­fólk deild­ar­inn­ar

„Sjúk­ling­ar sem eiga að leggj­ast inn þurfa að kom­ast frá bráðamót­tök­unni. Hjúkr­un­ar­fræðingar hér taka á móti bráðveiku fólki sem krefst mikillar sérhæfingar og athygli. Mönnun og húsnæði bráðamóttöku miðar að þeirri starfsemi. Vegna flæðisvanda þurfa hjúkrunarfræðingar bráðamóttöku að sinna áframhaldandi meðferð og hjúkrun sjúklinga sem nem­ur tveim­ur til þrem­ur legu­deild­um ofan á eigin störf. Þannig eru þeir að vinna und­ir marg­földu álagi og við hættulegar aðstæður.“

Aukin þjónusta ekki lausnin

Helga seg­ir flæðis­vand­ann ekki ein­göngu skila sér í auknu álagi á starfs­fólk held­ur einnig verri þjón­ustu við veikt fólk enda sé bráðamót­tak­an ekki með viðeig­andi úrræði og aðstoð við sjúk­linga sem eiga að vera á sér­hæfðum legu­deild­um. 

Tel­ur Helga að létta þurfi á verk­efn­um bráðamót­tök­unn­ar með því að beina þeim í rétt­an far­veg svo sjúk­ling­ar fái viðeig­andi meðferð. 

„Sjúk­ling­ar sem eiga að liggja á legu­deild­um spít­al­ans fá aðra þjón­ustu þar. Til dæmis, öll stoðþjón­ust­an sem fylg­ir legu­deild­um er ekki hér á bráðamót­tök­unni. Það er sjúkraþjálf­un, það er iðjuþjálf­un, það eru nær­ing­ar­fræðing­ar. Bara allskon­ar sérhæfð þjón­usta sem sjúk­ling­ar fá þegar þeir kom­ast inn á legu­deild sem er bara ekki til staðar á bráðamót­tök­unni.“

„Lausn­in er ekki sú að fá þessa þjón­ustu inn á bráðamót­tök­una. Það er ekki hægt. Það eru ekki fer­metr­ar hér fyr­ir all­an þenn­an fjölda af sjúk­ling­um. Við getum þá ekki sinnt sýk­ing­ar­vörn­um, þá get­um við ekki tryggt per­sónu­vernd til dæmis.

Mannekla á bráðamóttöku ekki stórt vandamál

Bráðamót­tak­an hef­ur heim­ild fyr­ir 90 stöðugild­um hjúkr­un­ar­fræðinga en í októ­ber voru tæp­lega 86 af þeim stöðum full­ar. Seg­ir Helga að ekki sé hægt að kenna vanda­málið við mann­eklu á bráðamóttökunni. „Það er ekki mikil mann­ekla á bráðamót­tök­unni. Við erum aftur á móti að sinna verk­efn­um sem við eig­um ekki að vera að sinna. Það vant­ar ekki aukin stöðugildi á bráðamóttökuna, sjúklingarnir eru á röng­um stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert