Flæðisvandi af bráðamóttökunni skapar margfalt viðbótarálag á starfsfólk deildarinnar, að sögn Helgu Rósu Másdóttur, hjúkrunardeildarstjóra bráðamóttöku. Telur hún vandann ekki liggja í skorti á starfsfólki á bráðamóttökunni heldur sé deildin einfaldlega að sinna verkefnum sem eiga heima annars staðar.
Á bráðamóttöku eru 36 rúmstæði og leita að jafnaði um 100 bráðveikir einstaklingar á sólarhring þangað. Því er ljóst að greining á vanda og ákvörðun um útskrift eða innlögn þarf að liggja fyrir á nokkrum klukkustundum svo alltaf sé laust pláss fyrir næsta sjúkling.
Flæðisvandi er þegar ákvörðun um innlögn liggur fyrir en sjúklingur kemst ekki inn á viðeigandi legudeild. Að sögn Helgu liggja á bráðamóttökunni 20 og upp í 44 sjúklingar að jafnaði í bið eftir plássi á legudeild. Nemur sá fjöldi sjúklinga tveimur til þremur legudeildum.
„Það að sjúklingar í bið eftir innlögn fylli öll rúmstæði bráðamóttökunnar gerir okkur ókleyft að taka á móti nýjum bráðveikum sjúklingum með öruggum hætti.
„Sjúklingar sem eiga að leggjast inn þurfa að komast frá bráðamóttökunni. Hjúkrunarfræðingar hér taka á móti bráðveiku fólki sem krefst mikillar sérhæfingar og athygli. Mönnun og húsnæði bráðamóttöku miðar að þeirri starfsemi. Vegna flæðisvanda þurfa hjúkrunarfræðingar bráðamóttöku að sinna áframhaldandi meðferð og hjúkrun sjúklinga sem nemur tveimur til þremur legudeildum ofan á eigin störf. Þannig eru þeir að vinna undir margföldu álagi og við hættulegar aðstæður.“
Helga segir flæðisvandann ekki eingöngu skila sér í auknu álagi á starfsfólk heldur einnig verri þjónustu við veikt fólk enda sé bráðamóttakan ekki með viðeigandi úrræði og aðstoð við sjúklinga sem eiga að vera á sérhæfðum legudeildum.
Telur Helga að létta þurfi á verkefnum bráðamóttökunnar með því að beina þeim í réttan farveg svo sjúklingar fái viðeigandi meðferð.
„Sjúklingar sem eiga að liggja á legudeildum spítalans fá aðra þjónustu þar. Til dæmis, öll stoðþjónustan sem fylgir legudeildum er ekki hér á bráðamóttökunni. Það er sjúkraþjálfun, það er iðjuþjálfun, það eru næringarfræðingar. Bara allskonar sérhæfð þjónusta sem sjúklingar fá þegar þeir komast inn á legudeild sem er bara ekki til staðar á bráðamóttökunni.“
„Lausnin er ekki sú að fá þessa þjónustu inn á bráðamóttökuna. Það er ekki hægt. Það eru ekki fermetrar hér fyrir allan þennan fjölda af sjúklingum. Við getum þá ekki sinnt sýkingarvörnum, þá getum við ekki tryggt persónuvernd til dæmis.
Bráðamóttakan hefur heimild fyrir 90 stöðugildum hjúkrunarfræðinga en í október voru tæplega 86 af þeim stöðum fullar. Segir Helga að ekki sé hægt að kenna vandamálið við manneklu á bráðamóttökunni. „Það er ekki mikil mannekla á bráðamóttökunni. Við erum aftur á móti að sinna verkefnum sem við eigum ekki að vera að sinna. Það vantar ekki aukin stöðugildi á bráðamóttökuna, sjúklingarnir eru á röngum stað.