Allt skólahald í Fossvogsdal á næsta skólaári

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlanir borgaryfirvalda gera ráð fyrir að allt skólastarf Fossvogsskóla fari fram í Fossvogsdal frá og með næsta hausti. 

Það þýðir að allt skólahald í Fossvogsskóla muni fara fram í skólahúsnæðinu sjálfu eða í færanlegu húsnæði í kring frá og með næsta skólaári.

Þetta kom fram á fundi borgaryfirvalda og fulltrúa verkfræðistofunnar Eflu, sem haldinn var í Bústaðakirkju nú síðdegis. Allt að 70-80 manns sátu fundinn, bæði á staðnum og í gegnum fjarfund. 

Skólahald hefur að miklu leyti farið fram í yfirgefnu skólahúsnæði í Korpuskóla í Grafarvogi og gerir enn. Margir foreldrar gera athugasemdir við að börn þurfi að ferðast með rútu í 40 mínútur á dag þegar styttra er í nærliggjandi skóla. 

Stórfelldar endurbætur

Á fundinum voru kynntar áætlanir um stórfelldar endurbætur við Fossvogsskóla, þar sem mygluvandamál hafa sett strik í reikninginn síðan árið 2018. Skólahald hefur að miklu leyti farið fram í yfirgefnu skólahúsnæði í Korpuskóla í Grafarvogi og gerir enn. Margir foreldrar gera athugasemdir við að börn þurfi að ferðast með rútu í 40 mínútur á dag þegar styttra er í nærliggjandi skóla. 

Meðal annars á að fjarlægja einangrun á útveggjum og einangra að nýju með álklæðningu. Þá á að endurnýja glugga, hurðir og þak skólahúsnæðisins. Einnig á að fjarlægja og endurbyggja alla innveggi og fara á yfir loftræstingu í húsinu. Eins verða raf- og pípulagnir endurnýjaðar eftir þörfum og sömuleiðis gólf- og loftefni. 

Þessar framkvæmdir kynnti Ámundi Brynjólfsson frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. 

Fram kom í máli hans að áætluð verklok væru þrískipt eftir þremur deildum húsnæðisins. Í Austurlandi eru verklok áætluð í júní 2022, í Vesturlandi í ágúst 2022 og í Meginlandi í ágúst 2023. 

Ámundi Brynjólfsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ávarpar fundinn síðdegis.
Ámundi Brynjólfsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ávarpar fundinn síðdegis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrar segja að borgin sé rúin trausti

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að reynt verði að tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks í Austur- og Vesturlandi á meðan framkvæmdum í Meginlandi vindur fram. 

Í máli margra foreldra barna í Fossvogsskóla, sem margir hverjir eru orðnir langþreyttir á ástandinu, kom fram að fólk treysti ekki áætlunum borgaryfirvalda. Þeir segja að traust foreldra í garð borgaryfirvalda sé ekkert og því séu uppi efasemdir um að úrbæturnar klárist á uppgefnum tíma. 

Helgi Grímsson ítrekaði enda oft og mörgum sinnum að verið væri að kynna áætlanir, sem gætu riðlast. Ámundi Brynjólfsson kom inn á að á tímum heimsfaraldurs væri mikil óvissa uppi um afhendingartíma, hráefniskostnað og fleira sem gæti aukið á óvissuna. 

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert