Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun á næstu vikum og mánuðum flyja starfsstöð sína út í hverfi borgarinnar. Þá byrjar sú vinna í Bústaða- og Háaleitishverfi í þessari viku dagana 12. til 14. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðhúsi Reykjavíkur.
Dagur mun frá þriðjudegi og fram á fimmtudag, ásamt sínu nánasta samstarfsfólki, hafa aðsetur í þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða í Efstaleiti 1. Hann mun svo halda hverfafund í Réttarholtsskóla með íbúum hverfisins á fimmtudagskvöld klukkan átta.
Á fundinum verða kynntar tillögur að nýju hverfisskipulagi og fjallað um þjónustu Víkings í hverfinu. Íbúar hverfisins eru í tilkynningu hvattir til þess að mæta og taka þátt en fundurinn verður einnig í beinu streymi og verður hægt að senda inn spurningar í gegnum fjarfundarbúnað.
Ýmislegt er á dagskrá borgarstjóra auk hverfafundar. Hyggst hann meðal annars hitta fulltrúa foreldrafélaga, stjórnendur leik- og grunnskóla, starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar og heimsækja Hjálpræðisherinn.
Næst liggur leið borgarstjóra í Hlíðarnar vikuna 26. til 28. október og svo í Laugardal vikuna 16. til. 18. nóvember. Ferðin um hverfi borgarinnar heldur svo áfram á nýju ári.