Eggert Skúlason
Brynjar Níelsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins er svartsýnn á að stjórnarflokkarnir þrír nái saman um myndun ríkisstjórnar. Hann á allt eins von á að Framsóknarflokkurinn horfi til vinstri og myndi stjórn með flokkum á þeim vængnum. Hann segist hins vegar sannfærður um að það yrði verri kostur fyrir þjóðina.
Í Dagmálaþætti dagsins fer Brynjar yfir hið pólitíska svið og hann segist ekki trúa því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að sætta sig við að ekki verði tekið hressilega til hendinni í heilbrigðismálum og biðlistum eytt. Að sama skapi segir hann ótækt að ætla að friða allt hálendið fyrir virkjunaráformum. Rammaáætlun sé í raun dauð og því blasi við að ekki sé hægt að framleiða meiri orku, hvað þá flytja hana.
Ef þetta ríkisstjórnarsamstarf á að ná að ganga telur Brynjar að annaðhvort Sjálfstæðisflokkur eða VG verði að gefa svo mikið eftir að það geti haft alvarlegar afleiðingar til lengdar fyrir þann flokk sem fer í eftirgjöfina.
Brynjar er vissulega varaþingmaður, en veltir fyrir sér nýjum atvinnutækifærum og er þar opinn fyrir ýmsu.
Rétt er að taka fram að viðtalið við Brynjar var tekið áður en óvæntur liðsauki barst þingflokki Sjálfstæðisflokksins.