Eins og greint var frá um helgina þá gekk Birgir Þórarinsson, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna nú á laugardag. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Ernu Bjarnadóttur, sem skipaði annað sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi og er varamaður Birgis á þingi.
Í samtali við Morgunblaðið um helgina tók Birgir það fram að hann hefði ráðfært sig við trúnaðarmenn flokksins í Suðurkjördæmi áður en hann lét af því verða að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þar á meðal Ernu Bjarnadóttur varamann sinn á þingi og fram kom að hún myndi einnig færa sig um set, tæki hún sæti á þingi.
Í dag greindi Rúv frá því að formaður kjördæmaráðs Miðflokksins í Suðurkjördæmi, Óskar Herbert Þórmundsson, hefði sagt af sér á fundi ráðsins nú á laugardag. Hann hefði gert það vegna þess hvernig vistaskipti Birgis báru að og að hann teldi sig bera ábyrgð á uppstillingu listans í kjördæminu.