Fimm ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir að nauðga fyrrverandi sambúðarkonu sinni.

Brotið átti sér stað þriðjudaginn 15. október 2019, en maðurinn var fundinn sekur um að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við fyrrum sambúðarkonu sína án hennar samþykkis.

Framburður konunnar stöðugur

Maðurinn neitaði sök, en viðurkenndi að hafa haft samræði við konuna umrætt sinn. Hann hélt því fram að þetta hefði verið með samþykki hennar. 

Tekið var fram að framburður konunnar hefði verið stöðugur um atvik. 

Í niðurstöðukafla dómsins segir meðal annars:

„Síðan hafi ákærði hent henni í rúmið, girt [sic] niður um hana og byrjað að hafa við hana samræði og þá togað í hár hennar. Á meðan ákærði hafði samræði við hana hefði hún frosið og hætt að biðja ákærða um að hætta. Kvaðst hún hafa, meðan á þessu stóð, nokkrum sinnum beðið ákærða að hætta og nokkrum sinnum ýtt honum frá sér og sagt honum að þau væru ekki lengur saman. Þá kom fram hjá brotaþola í framburði hennar fyrir dómi að hún hafi sagt ákærða, þegar hann hafði við hana samræði og togaði í hár hennar, að henni þætti þetta vont.“ 

Var þessi framburður metinn að mestu í samræmi við framburð sem bókaður var eftir henni á neyðarmóttöku.

Ekkert þótti fram komið um að konan hefði gert ráð fyrir því að eiga í kynferðislegum samskiptum við manninn umrætt sinn.

Tilgangurinn að sækja föt

„Fyrir liggur að ákærði óskaði eftir því að brotaþoli sendi honum mynd af sér allri áður en hún kom. Verður af framburði brotaþola ráðið að hún hafi skilið það þannig að eitthvað kynferðislegt lægi þar að baki af hálfu ákærða og að hún neitaði að senda honum slíka mynd. Þá kom skýrt fram af hálfu þeirra beggja að tilgangur brotaþola með því að koma til ákærða var að sækja föt sem [...] átti og að þau voru þá hætt saman.“

Tekið er fram í dómi héraðsdóms að fyrir liggi útprentun af skilaboðum sem maðurinn sendi konunni um þremur klukkustundum eftir að hún fór, þar sem hann baðst afsökunar, og staðfesting á því að þau bárust frá honum.

„Við rannsókn málsins staðfesti ákærði að hafa sent þessi skilaboð og fyrir dómi dró hann ekki í efa að hann hefði sent þau en kvaðst ekki muna það lengur. Kvaðst hann telja að þessi skilaboð hefðu varðað hótun sem brotaþoli setti fram áður en hún fór, um að hann fengi ekki oftar að
sjá [...]. Brotaþoli hefur alfarið neitað því að hafa hótað ákærða á þennan hátt og sagði þau ekki hafa [...].“

Skýringarnar ekki trúverðugar

Þá segir að við mat á framburði mannsins sé óhjákvæmilegt að líta heildstætt á það sem fram sé komið í málinu, þar á meðal framburði vitna og málsgögn.

„Þegar litið er til þeirra orða sem ákærði lét falla í skilaboðunum sem hann sendi brotaþola eftir að atvik gerðust þá eru skýringar ákærða á þeim ekki trúverðugar. Eru þær fremur óljósar eins og lýst hefur verið og hafa tekið breytingum frá því sem var á rannsóknarstigi. Benda skilaboðin samkvæmt orðanna hljóðan til þess að ákærði telji sig hafa gert eitthvað á hlut brotaþola.
Þá styðja þeir áverkar sem brotaþoli reyndist vera með við skoðun á neyðarmóttöku við framburð brotaþola en ákærði hefur engar skýringar gefið á þeim. Samkvæmt þessu er það mat dómsins að framburður ákærða sé, hvað framangreint varðar, óstöðugur auk þess sem hann samrýmist ekki málsgögnum. Metur dómurinn því framburð hans ótrúverðugan og verður niðurstaða málsins ekki á honum byggð að því leyti sem hann er í andstöðu við annað sem fram er komið.“

Ekki gagnkvæmur áhugi

Héraðsdómur hafnar alfarið vörnum mannsins sem byggðust á því að sýnt hefði verið fram á gagnkvæman áhuga þeirra beggja á að hafa kynmök.

„Jafnvel þó að dregin yrði sú ályktun af framburði brotaþola hjá lögreglu að hún hafi hikað við að mótmæla háttsemi ákærða er framburður hennar annars skýr um það hvenær hún ýtti ákærða frá sér og bað hann um að hætta, eða fljótlega eftir að ákærði byrjaði að kyssa hana.“

Á sama tíma metur dómurinn framburð konunnar stöðugan um að maðurinn hafi haft samræði við hana gegn vilja hennar. Þótti framburður hennar fyrir dómi skýr og í samræmi við framburð hennar við rannsókn málsins.

„Fyrir dómi var augljóst að það tók mjög á hana að lýsa atvikum. Einnig var framburður hennar í fullu samræmi við framburð þeirra vitna sem hittu hana eða ræddu við hana í kjölfar brotsins en þau lýsa því að hún hafi grátið og verið miður sín og fullyrt að ákærði hefði brotið gegn henni. Þá leitaði hún sér aðstoðar á neyðarmóttöku strax í kjölfar atvika. Bar sá hjúkrunarfræðingur er þar tók á móti brotaþola í samræmi við framangreint um ástand hennar. Þá sagði sá læknir er þar skoðaði brotaþola að hún hefði sýnt einkenni þess að vera í áfalli en hún hafi m.a. skolfið.“

Áður gerst sekur um kynferðsibrot

Við ákvörðun refsingar mannsins var litið til þess að hann hefði þrisvar verið dæmdur til refsingar fyrir kynferðisbrot. Árið 2014 var hann þannig dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. hegningarlaga, sem kveður á um refsingu fyrir samræði við barn undir 15 ára aldri.

Þá var hann árið 2016 sakfelldur fyrir brot gegn sama lagaákvæði, en bæði brotin framdi hann áður en hann hafði náð 18 ára aldri. Þar að auki var hann í febrúar 2019 fundinn sekur um nauðgun og dæmdur til þriggja ára og sex mánaða fangelsisvistar.

Hafði sá dómur ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar í þessu tilfelli, en enn fremur var litið til 205. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því ákvæði má hækka refsingu um allt að helming, hafi maður áður verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot.

Einnig var til þess litið að brot mannsins hefði verið gróft og valdið konunni líkamlegum áverkum auk langvarandi andlegrar vanlíðanar.

Engar málsbætur

„Einnig lítur dómurinn til 6. töluliðar sama lagaákvæðis en ákærði lét sér ekki segjast þrátt fyrir að brotaþoli hafi ítrekað látið í ljós að hún vildi ekki hafa samræði við hann. Þá lítur dómurinn sérstaklega til þeirra nánu tengsla sem voru á milli þeirra en brotaþoli og ákærðu höfðu nýverið slitið sambúð sinni og [...], sbr. 3. mgr. 70. gr. sömu laga og að með broti sínu braut ákærði gróflega gegn kynfrelsi hennar. Loks liggur fyrir, samkvæmt framburði ákærða, að hann hafði fulla vitneskju um að brotaþoli hafði glímt við [...] og m.a. verið lögð inn á spítala vegna [...] um sex vikum áður en atvik gerðust.“

Maðurinn var talinn eiga sér engar málsbætur. Þó var litið til þess að málið hefði ekki verið sent héraðssaksóknara fyrr en sjö mánuðum eftir að rannsókn lauk. Ekki hefðu komið fram skýringar á þeim drætti.

Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fimm ár í fangelsi. Vegna sakarferils hans og alvarleika brotsins þóttu heldur ekki forsendur til að skilorðsbinda refsinguna.

Konan hafði sjálf gert kröfu um fjórar milljónir króna í miskabætur. Þótti héraðsdómi hæfilegt að ákvarða henni tvær milljónir króna, auk vaxta og dráttarvaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert