Steinar Ingi Kolbeins
Maðurinn sem lögregla skaut á Egilsstöðum nú í ágúst í kjölfar skotárásar hans er enn í gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins er á lokametrunum, segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is
„Þetta gengur ágætlega bara. Við sjáum fram á að rannsókninni ljúki nokkuð bráðlega en ég get samt ekki fullyrt hvenær nákvæmlega. Enn er útistandandi smá tæknivinna en þetta er samt á lokametrunum.“
Maðurinn er eins og áður segir enn í gæsluvarðhaldi og þrátt fyrir að vilja ekki staðfesta það með neinni vissu þá segir Kolbrún þá staðreynd að hann sé enn í varðhaldi gefa ágætis vísbendingu um að gefin verði út ákæra í kjölfar rannsóknarinnar.
Kolbrún sagði nú í ágústmánuði að tólf vikur væri hinn almenni rammi og að innan þess tíma þyrfti að vera gefin út ákæra eigi að halda manninum í gæsluvarðhaldi. Nú eru um tíu vikur liðnar og gerir Kolbrún ráð fyrir því að áðurnefndur tímarammi standist.