Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir núverandi tollakerfi, þar sem hærri innflutningstollar leggjast á ákveðnar vörur á ákveðnum tíma árs, vera algjörlega galið. Hann segir að það hafi sýnt sig vel að kerfið virki ekki.
Mikill skortur hefur verið á blómkáli í verslunum undanfarnar vikur. Innlendir dreifingaraðilar hafa fengið innan við 10 prósent upp í pantanir á bæði blómkáli og spergilkáli og hefur sellerí verið ófáanlegt. Orsökin er hærri verðtollur á grænmetið sem um ræðir.
Þrjátíu prósenta verðtollur er á blómkáli og selleríi frá 15. ágúst til 15. október og á spergilkáli frá 1. júlí til 15. október. Þá er einnig fastur magntollur á kíló, 176 krónur á blómkál og spergilkál og 276 krónur fyrir sellerí. Þetta getur valdið tvö- til þreföldun á innkaupsverði varanna.
„Þetta er gamaldags leið til að stýra neyslu og ætti að heyra fortíðinni til. Þetta gagnast hvorki bændum né neytendum,“ segir Breki í samtali við Morgunblaðið.
„Það þarf að stokka upp allt þetta kerfi og styðja bændur með beinum styrkjum í stað þess að verja þá innan einhverra tollmúra þar sem þeir lepja dauðann úr skel. Það hefur sýnt sig að þetta kerfi virkar ekki. Kerfið býr til vöruskort. Þá gefur augaleið að það er gallað.“
Breki segir að frekar ætti að styðja bændur til nýsköpunar og þannig kæmust þeir í beint samband við neytendur og myndu skynja betur hver vilji þeirra væri.
„Matvælaframleiðendur verða að treysta eigin framleiðslu, treysta því að neytendur velji þeirra framleiðslu. Sagan sýnir að þeim er treystandi. Þannig myndi kerfið virka í raun.“
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að þau hafi fundið vel fyrir skortinum og þá sérstaklega á selleríi. Krónan hefur því neyðst til að flytja það grænmeti inn frá útlöndum. „Svipað var upp á teningnum í fyrra, en þá var skortur á öllum þessum tegundum stóran hluta tollatímabilsins og urðum við þá einnig að flytja þær vörur inn frá útlöndum,“ segir Ásta.
Krónan leggur mikið upp úr samvinnu við íslenska garðyrkjubændur og segir Ásta að þau leggi áherslu á að fá eins mikið af íslenskri uppskeru og mögulegt er. „Reynsla okkar sýnir að íslenskir neytendur eru reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir innlenda framleiðslu en þá erlendu. Því myndum við telja, rétt eins og hefur sýnt sig með gúrkur og tómata, að út frá hagsmunum innlendra framleiðenda væri í raun óþarfi að leggja tolla á innflutt grænmeti. Það eru auðvitað líka hagsmunir neytenda,“ segir Ásta.
Með háum innflutningstollum hækkar verðið á þessum vörum til neytenda. Það sé þvert á stefnu Krónunnar, sem leggur mikið upp úr því að halda hollustuvörum á sem hagstæðustu verði svo allir sjái sér hag í að kaupa þær. „Ég trúi ekki öðru en ný ríkisstjórn breyti þessu snarlega. Þessir tollar eru ekki neinum í hag, hvorki innlendum framleiðendum né neytendum hér á landi,“ segir Ásta.
Félag atvinnurekenda vakti athygli á málinu í tilkynningu fyrir helgi. Félagið bendir á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beri skylda til að endurmeta tollverndartímabilin á tveggja ára fresti og nú sé komið að fyrstu endurskoðuninni. „Eitt af markmiðum búvörulaga er að nægjanlegt vöruframboð sé ávallt tryggt við breytilegar aðstæður í landinu. Það markmið næst augljóslega ekki eins og lögin eru nú úr garði gerð og blasir við að Alþingi þurfi að breyta þeim. Best væri að það gerðist sem allra fyrst eftir að þing kemur saman í haust,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.