Fyrirtækið Geislatækni, sem varð fyrir árás tölvuþrjóta 23. september síðastliðinn, er orðið starfhæft að nýju. Enn hefur þó ekki tekist að endurheimta þau gögn sem „sett voru í frost“. Þetta segir Grétar Jónsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við mbl.is.
„Gögnin eru enn í frosti, ef svo má segja. Ég er samt nokkuð bjartsýnn á að það takist að endurheimta þau að lokum. Að minnsta kosti eru þeir aðilar sem eru að vinna í þessu fyrir okkur nokkuð bjartsýnir en þetta gæti tekið nokkrar vikur,“ segir Grétar.
Ekki er búið að taka saman endanlegt fjárhagslegt tjón Geislatækni vegna árásarinnar, enda málinu í raun ekki lokið. Grétar segist þó nokkuð viss um að það sé á þriðja tug milljóna.
Spurður hvað hefði mátt fara betur segir Grétar það að sjálfsögðu í skoðun. Einkennilegt sé að afrit af gögnunum hafi horfið líka. „Aðilinn sem er að þjónusta okkur með þessi afrit hefur ekki lent í þessu áður. Svo veit maður ekki enn réttarstöðu sína gagnvart þeim aðila.“
Hann segir þá ljóst að hægt sé að læra af þessu. Ljóst sé að fyrirtæki þurfi að bera ábyrgð og passa sig að einhverju leyti sjálf. Mikilvægt sé að eiga til aðgerðaáætlun sem hægt sé að grípa til komi til árásar.
Hann segir þessa umræðu hafa verið tekna innanhúss hjá sér fyrir um tveimur árum og var gert ráð fyrir því að það tæki um einn dag að verða starfhæfir á ný.
„Sú varð að lokum ekki raunin, enda tók það okkur rúma viku að komast í gang. Svo er þetta náttúrulega aðeins höktandi vegna þess að við þurftum að setja upp öll forrit að nýju til dæmis.“
Grétar segist einnig finna fyrir ákveðinni hræðslu meðal rekstraraðila vegna stöðunnar. Fyrirtækin verði að passa sig sjálf og hafa eftirlit með eftirlitinu og vísar þar til afritanna sem hurfu einnig.
„Maður heyrir það að það er skjálfti í mönnum. Menn eru að fara yfir sín mál og taka ferlana í gegn. Það er of oft tel ég verið að einblína á vélbúnað. Aðalverðmætin liggja í gögnunum, ekki í vélbúnaði.“