Rýmingu hefur verið aflétt á þeim húsum sem standa fjær varnargörðum á Seyðisfirði, að því er segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi.
Segir í tilkynningunni að útreikningar á virkni leiðigarða og safnþróar undir óstöðugum hrygg milli stóru skriðunnar frá desember 2020 og Búðarár liggi nú fyrir. Samkvæmt þeim eru allar líkur á að varnargarðar og safnþró leiði skriðuna til sjávar.
Rýmingu hefur þó ekki verið aflétt á þeim fimm húsum sem standa næst varnargarðinum þar sem enn mælist hreyfing á hryggnum. Húsin eru Fossgata 5 og 7 og Hafnargata 10, 16b og 18c.
Fram kemur að engar hreyfingar hafi mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar utan þeirra er mælst hafa í hryggnum.
Þá segir að öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið sé óheimil. Umferð um göngustíga meðfram Búðará og og annarsstaðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum verði áfram með aðgæslu.
Herðubreið verður opin á morgun milli 14 og 16. Íbúar í húsunum sem enn sæta rýmingu geta þannig komið og hugað að húsum sínum undir eftirliti og í skamma stund.
Hættustig Almannavarna er enn í gildi.