Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans segja að hættuástand ríki á bráðamóttökunni og óttast þeir að gera mistök við slíkt ástand, sem geti haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir sjúklinga.
Þetta kemur fram í tilkynningu, sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku sendir til fjölmiðla fyrir hönd samstarfsfólks síns.
„Það ríkir sinnuleysi gagnvart bráðmóttökunni. Það virðist enginn ætla að bera ábyrgð, það er ekki brugðist við,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar, sem sögð er vera eins konar ákall til fjölmiðla um að senda út neyðarkall hjúkrunarfræðinga.
Í tilkynningunni segir einnig að sjúklingum sé boðið að liggja á bekkjum á göngum bráðamóttökunnar, í öllum skúmaskotum, í herbergi sem ætlað er sem mataraðstaða starfsmanna og jafnvel í herbergi sem ætlað er fyrir aðstandendur sjúklinga.
„Daglega kemur upp sú staða að sjúkrabílar bíða með sjúklinga á börum þar sem ekki er til pláss og daglega fyllist biðstofa Bráðamóttökunnar af veiku og slösuðu fólki sem bíður allt upp í 6 klst. eftir því að komast inn í skoðun, greiningu og meðferð. Dag eftir dag fer fjöldi sjúklinga yfir 80 talsins í rými sem ætlað er 36 veikum og slösuðum. Dag eftir dag bíða allt að 30 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir spítalans og þegar verst lætur bíða á deildinni milli 40 og 50 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir,“ segir í fréttatilkynningunni.
Einnig segir að yfirvöldum og stjórnendum spítalans sé fullljóst að ástandið sé svo slæmt og að hættuástand ríki á bráðamóttökunni.
Vegna þessa hættuástands sé starfsfólk óttaslegið um að gera geigvænleg mistök vegna álags, eins og fyrr segir, og þar að auki sé öryggi sjúklinga ekki tryggt í slíku ástandi.
Í ljósi þess að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í að vera upplýsandi og rýna í málefni er teljast til grunnstoða samfélagsins er þessi tilkynning send út sem neyðarkall eftir því að brugðist verði við og gripið til aðgerða er leysa þennan alvarlega vanda, segir í lok tilkynningarinnar.
Tilkynningin í heild sinni:
Skýrslur, greinagerðir, ábendingar og minnisblöð um alvarleika þeirrar stöðu sem daglega ríkir á Bráðamóttökunni, hafa endurtekið verið send og birt bæði stjórnendum Landspítala, Embætti Landlæknis og heilbrigðisráðherra.
Það hefur ekki leitt til neinna breytinga og sjúklingum er boðið uppá að liggja á bekkjum á göngum deildarinnar, í öllum skúmaskotum og jafnvel í herbergi ætluðu starfsfólki til að matast í og inn á herbergi ætluðu aðstandendum.
Daglega kemur upp sú staða að sjúkrabílar bíða með sjúklinga á börum þar sem ekki er til pláss og daglega fyllist biðstofa Bráðamóttökunnar af veiku og slösuðu fólki sem bíður allt upp í 6 klst. eftir því að komast inn í skoðun, greiningu og meðferð.
Dag eftir dag fer fjöldi sjúklinga yfir 80 talsins í rými sem ætlað er 36 veikum og slösuðum. Dag eftir dag bíða allt að 30 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir spítalans og þegar verst lætur bíða á deildinni milli 40 og 50 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir.
Mánuðum, jafnvel árum saman hefur stjórnendum spítalans og heilbrigðisyfirvöldum verið full ljóst að hættuástand skapast á deildinni við þessar aðstæður.
Hættuástand vegna þess að öryggi sjúklinga er ekki tryggt, vegna þess að líkur á mistökum stóraukast og vegna þess að hjúkrunarfræðingar, jafnt og annað starfsfólk er yfirkeyrt á vöktum sínum vikum og mánuðum saman.
Við þessar starfsaðstæður óttast starfsfólk að gera mistök sem geta haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar og þurfa að lifa með því.
Það ríkir sinnuleysi gagnvart Bráðamóttökunni. Það virðist enginn ætla að bera ábyrgð, það er ekki brugðist við.
Í ljósi þess að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í að vera upplýsandi og rýna í málefni er teljast til grunnstoða samfélagsins er þessi tilkynning send út sem neyðarkall eftir því að brugðist verði við og gripið til aðgerða er leysa þennan alvarlega vanda.