„Strauk mér upp og niður um rassinn mjög ákaft“

Jón Baldvín Hannibalsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Jón Baldvín Hannibalsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Carmen Jóhannsdóttir segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafa byrjað að strjúka á henni rassinn þegar hún var að hella víni í glös við matarborð á heimili Jóns Baldvins og eiginkonu hans Bryndísar Schram á Spáni sumarið 2018.

„Hann strauk mér upp og niður einu sinni mjög ákaft um rassinn,“ sagði Carmen.

Hún bar vitni í héraðsdómi í morgun í gegnum Teams frá Spáni. Þar sagði hún Jón Baldvin hafa setið vinstra megin við hana og þegar hún fór hinum megin við hann til að skenkja í glösin hafi hann strokið henni sem varð til þess að henni krossbrá.

Kom ekki upp orði

Hún sagðist í framhaldinu hafa farið í sjokk, sest aftur niður og ekki komið upp orði.  Á sama tíma sagði móðir hennar Laufey Arnórsdóttir að hún hafi séð hvað Jón Baldvin gerði og beðið hann um að biðja dóttur hennar afsökunar.

Carmen kvaðst í framhaldinu hafa farið niður frá þakinu, þar sem matarboðið var haldið, og hringt í fyrrverandi kærasta sinn, söngvarann Daníel Ágúst Haraldsson, til að spyrja hvað hún ætti að gera. „Ég var miður mín,“ sagði hún og nefndi að Daníel hafi ráðlagt henni að fara í burtu.

Eftir að hafa rætt við systur sína hringdi hún í móður þeirra og bað hana um að pakka saman fötunum þeirra.

„Jón Baldvin kallar og æpir á eftir okkur að ef við förum með þetta í fjölmiðla þá lögsæki þau okkur,“ sagði hún.

Spurð hvernig henni hafi liðið eftir atvikið sagði hún: „Mér leið eins og einhver væri að nýta sér vald sitt gegn mér,“ sagði hún og bætti við. „Þetta var náttúrulega sjokk og þetta var hálfótrúlegt. Maður varla trúði því að þetta hefði gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert