Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að matarboði sem hann og eiginkona hans Bryndís Schram héldu á Spáni 16. júní 2018 hafi lokið á innan við mínútu.
„Gerðist eitthvað saknæmt á þessari mínútu? Svarið við því er nei,“ sagði Jón Baldvin í Héraðsdómi Reykjavíkur, og bætti við að öflug vitni styðji þessa fullyrðingu.
Jón er ákærður fyrir að hafa brotið kynferðislega á Carmen Jóhannsdóttur þegar hún var gestkomandi á heimili Jóns og Bryndísar í bænum Salobreña í Andalúsíu á Spáni.
Jón Baldvin talaði um að matarboðið hafi verið haldið „daginn sem heimsmeistaramótið í fótbolta var haldið og Ísland náði þeim stórkostlega árangri“ að Hannes Halldórsson varði víti frá Messi [leikmanni Argetínu].
Hann sagði meint atvik hafa gerst í spænskri lögsögu og ef allt hefði verið með felldu hefði átt að kalla til lögregluna á Spáni á staðinn til að rannsaka málið. Ekki hafi verið sannað að málið hafi gerst í íslenskri lögsögu.
Hann lýsti matarboðinu þannig að fimm hefðu verið þar staddir, eða hann, Bryndís, vinkona Bryndísar, Hugrún Jónsdóttir, Laufey Arnórsdóttir og dóttir hennar Carmen Jóhannsdóttir.
Jón sagði stóra atburðinn á þessum degi hafa verið fótboltaleikinn. Búið hafi verið að setja upp stóran skerm á torgi í þorpinu og þangað hafi þau fyrst farið til að horfa á leikinn á meðan maturinn mallaði í eldavél en halda átti kjúklingaveislu. Á þessum stað hafi hann drukkið einn bjór í hvorum hálfleik. Þegar þau sneru til baka í leikslok hafi borðbúnaður og matföng verið borin upp á þakið í húsakynnum Jóns Baldvins og Bryndísar.
Hann sagði að eftir að Bryndís hefði flutt stutta ræðu þar sem hún bauð gesti velkomna hafi það gerst skyndilega „að Laufey Ósk sprettur upp og gefur yfirlýsingu á þá leið: „Jón Baldvin, þú átt að biðja dóttur mína afsökunar. Þú káfaðir á henni, ég sá það.“
Jón Baldvin sagði þetta hafa komið eins og þrumu úr heiðskíru lofti. Við þetta hafi borðhaldinu lokið. „Við áttum svo sannarlega ekki von á þessari uppákomu. Það var ekkert sem gaf tilefni til þess. Við vorum þrumulostin og furðulostin,“ sagði hann. „Ég sver þess dýran eið að það gerðist ekkert saknæmt.“
Hann bætti því að hann hefði haldið ró sinni þrátt fyrir þetta og látið sig hverfa. Nefndi hann að ásökunin hafi verið afar óvænt. „Ég nota orðið að Laufey hafi birst okkur eins og umskiptingur,“ sagði hann og átti þar við að vináttusamband hafi ríkt. Kvöldið áður hafi hún setið með þeim og farið fögrum orðum um gestgjafa sína.
Hann sagði tvær hugsanlegar skýringar á þessum sakargiftum. Önnur sé sú að Laufeyju hafi ekki verið sjálfrátt. Þau hefðu verið að drekka bjór er þau horfðu á fótboltaleikinn og Laufey hefði sagt Bryndísi að vegna veikinda væri hún á sterkum lyfjum og mætti ekki drekka áfengi ofan í það. Sagði hann að sjónvarvottar hefðu sagt Laufeyju hafa drukkið sterkt vín. Önnur og líklegri skýring gæti verið sú að atvikið hafi verið sett á svið og notað til málaferla síðar meir til að spilla mannorði hans. Hann sagði lögmann hans hafa verið í samskiptum við talsmann fésbókarsíðu í kringum mál dóttur hans Aldísar gegn honum og talsmaðurinn hafi reynst vera Carmen. „Hún kom fram sem talsmaður í kringum mál dóttur minnar þar sem þær nota nafn Metoo ófrjálsri hendi til að skreyta sig með,“ sagði hann og taldi yfirlýsingar hennar í fjölmiðlum fyrir vikið ekki vera trúverðugar.