Vill nýja sundlaug í Breiðholti

Breiðholtslaug.
Breiðholtslaug. mbl.is/RAX

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, vill að ný sundlaug verði byggð í Seljahverfinu í Breiðholti og hefur lagt fram tillögu þess efnis til skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. „Svæðið neðst í Seljahverfinu gæti verið góður staður,“ segir Kolbrún. Hún segir Breiðholtið það stórt hverfi að eðlilegt sé að þar séu tvær sundlaugar. Alls búi á bilinu 22 til 24 þúsund manns í hverfinu. „Þetta eru í rauninni þrjú hverfi í einu stóru.“

Tvöfaldaðist á áratug

Kolbrún segist ánægð með að komin sé upp umræða um nýja sundlaug en hún lagði, í kjölfar ábendinga frá Breiðhyltingum, fram tillöguna og efndi til umræðu í facebookhópnum „Íbúasamtökin Betra Breiðholt“.

Í færslu Kolbrúnar segir að aðsókn í Breiðholtslaug hafi á einum áratug rúmlega tvöfaldast. Til að mynda hafi árið 2017 verið opnuð líkamsræktarstöð við laugina sem gæti hafa sett strik í reikninginn.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, vill að ný sundlaug verði …
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, vill að ný sundlaug verði byggð í Seljahverfinu í Breiðholti. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru mjög margir, hef ég heyrt, að fara í önnur hverfi í sund,“ segir Kolbrún og bendir á að hverfi sem telja færri íbúa hafi sínar eigin sundlaugar og til að mynda séu þrjár sundlaugar í Hafnarfirði þar sem íbúafjöldinn er 28 þúsund.

Aki í önnur sveitarfélög

„Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund frá 8-16. Vissulega er skólasund í forgangi en það er ekki ásættanlegt að almenningur eigi þess ekki kost að fara í sund nema á kvöldin til að synda. Breiðhyltingar eru jafnvel farnir að aka í önnur sveitarfélög til þess að fara í sund,“ segir í greinargerð Flokks fólksins, sem vill að skoðað verði fyrir alvöru að bæta við annarri sundlaug í Breiðholti.

„Þetta er góð líkamsrækt og gott fyrir heilsuna. Ekki hafa allir efni á líkamsræktarkorti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert