Lögreglan telur að vélhjólasamtökin Bandidos MC Iceland hafi hlotið fullgildingu á Íslandi frá MC Bandidos Sweden og að liðsmenn þeirra séu á annan tug talsins. Í kringum þennan hóp eru síðan nokkrir stuðningsmannahópar. Bækistöðvar samtakanna eru á Suðurnesjum.
Þetta segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann að fara þurfi í ákveðið ferli innan samtakanna til að öðlast fullgildingu. Eftir að sótt er um inngöngu fá menn ákveðna stöðu sem kallast annaðhvort „probationary“ eða „prospects“ og er þar átt við ákveðinn reynslutíma. Minni stuðningsmannaklúbbar eru myndaðir í kringum þetta og í framhaldinu er sótt um fullgildingu innan stóru samtakanna, MC Bandidos Sweden, sem eru staðsett í Svíþjóð eins og nafnið gefur til kynna.
Að sögn Runólfs eru vélhjólasamtökin Hells Angels MC og Outlaws MC einnig með fullgildingu hér á landi.
Í morgun greindi mbl.is frá því að nokkrum liðsmönnum Bandidos frá Svíþjóð og Finnlandi hefði verið vísað frá Íslandi undanfarna daga. Runólfur segir þetta til marks um að lögreglan hér á landi sé að beina sjónum sínum meira að slíkum vélhjólasamtökum. Liðsmönnum annarra samtaka en Bandidos hefur þó ekki verið vísað á brott frá Íslandi að undanförnu.
„Klúbbarnir eru mest áberandi í Danmörku og Svíþjóð og við erum í mjög góðu sambandi við lögregluyfirvöld þar,“ greinir Runólfur frá og á þar við bæði ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Vélhjólasamtök Bandidos, Hells Angels eða Outlaws sem merkja sig MC, eru skilgreind bæði af Europol og Interpol sem skipulögð glæpasamtök. „1%-klúbbar eru þeir stundum kallaðir líka,” segir Runólfur og nefnir að í Evrópu snúist starfsemi þeirra mikið um yfirráð yfir fíkniefnasölu og vændi en vændinu fylgi einnig mansal.
Hann nefnir starfsemi vélhjólasamtaka sem gamla sögu og nýja hérlendis og vísar í skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi frá árinu 2017. Þar kom fram að vísbendingar væru um að slík samtök væru að beina sjónum sínum aftur að Íslandi eftir uppgang hér upp úr aldamótunum.
Úr skýrslunni: „Það er mat lögreglu að útlagagengi vélhjólamanna (e. Outlaw Motorcycle Gangs) á Íslandi með tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi sýni merki um aukna starfsemi. Hells Angels, Outlaws og Bad Breed eru þau samtök sem nú leitast einna helst við að skapa sér stöðu hér á landi.“
Samtökin Bandidos hafa verið bönnuð, meðal annars í Þýskalandi og Hollandi en slíkt hefur ekki gerst á Norðurlöndunum. Runólfur bendir í þessu samhengi á nýfallinn dóm í Danmörku um að banna starfsemi gengisins Loyal To Familya, auk þess sem Finnar bönnuðu í fyrra þarlend nýnasistasamtök.
„Það eru fordæmi fyrir því að banna svona klúbba en það hefur ekki komið til alvarlegrar umræðu hér. En að sjálfsögðu er það einn af möguleikunum sem eru til skoðunar,“ segir Runólfur.