Bæjaryfirvöld í Hveragerði eru um þessar mundir að úthluta lóðum undir fjölbreytta athafnastarfsemi á tveimur stöðum og hefur verið mjög mikil eftirspurn eftir svæðum til uppbyggingar að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra.
Sælgætisgerðin Freyja er meðal þeirra sem undirbúa uppbyggingu í Hveragerði. Hefur verið ákveðið að fyrirtækið færi starfsemi sína úr Kópavogi og að reist verði ný verksmiðja á 15 þúsund fermetra lóð, sem Freyja hefur fengið úthlutaða á nýju athafnasvæði í Hveragerði.
Ævar Guðmundsson, eigandi og stjórnarformaður Freyju, segir framtíðarstaðsetningu fyrirtækisins í Hveragerði um margt heppilega og þröngt sé orðið um starfsemina í Kópavogi, sem þurfi að stækka til að geta annað að fullu allri eftirspurn, sérstaklega í útflutningi. Útflutningur til Norðurlandanna hafi gengið vonum framar og salan aukist hraðar á síðustu árum.
„Á öðru svæðinu erum við að úthluta lóðum fyrir verslun og þjónustu og höfum nú þegar fengið tvær spennandi umsóknir, annars vegar frá fjársterkum aðilum sem vilja byggja upp heilsulind og hins vegar frá Ölverki, sem er með áform um ferðatengda þjónustu í kringum bjór og bjórgarð,“ segir Aldís.
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir eins kílómetra langa svifbraut og einnig verður Gróðurhúsið opnað fljótlega, en þar verða m.a. mathöll og hótel. Að sögn Aldísar eru viðræður í gangi við fleiri aðila um fjölbreytta uppbyggingu í bænum. Vel á annað hundrað störf verða til við alla þessa starfsemi.
Hagstætt lóðaverð í Hveragerði er ein af meginástæðum þessarar miklu eftirspurnar eftir aðstöðu að mati Aldísar. Staðsetningin, búsetuskilyrðin og uppbygging hafnarinnar í Þorlákshöfn skipti líka máli. „Svo held ég að við séum líka að sjá einhverjar afleiðingar af því að lóðir í Reykjavík eru orðnar mjög dýrar.“
Nánar má lesa um uppbyggingu í Hveragerði í Morgunblaðinu.