Sinfóníuhljómsveitin Concertgebouw kemur fram í Eldborg í Hörpu 10. nóvember næstkomandi. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur til Íslands.
Segir í tilkynningu að hljómsveitin sé ein allra besta sinfóníuhljómsveit heims og að um sé að ræða viðburð á heimsmælikvarða sem örsjaldan býðst að upplifa á Íslandi. Þá séu tónleikarnir einn af hápunktum ársins í fjölbreyttri dagskrá í tilefni af afmælinu.
Miðasala hefst föstudaginn 15. október kl. 12.
Á efnisskránni eru tvær af stórbrotnustu sinfóníum tónbókmenntanna, hin epíska sjötta sinfónía Dímítríjs Shostakovitsj og hin tregafulla sjötta sinfónía Pjotrs Tsjajkovskíjs, með undirtitilinn „Pathétique“.
„Concertgebouw-hljómsveitin þykir skara fram úr fyrir silkimjúkan hljóm, mikla dýnamíska breidd og gífurlega blæbrigðaríka og næma túlkun. Hljómsveitin var stofnuð árið 1888 og á heimili sitt í hinu einstaka tónlistarhúsi Concertgebouw, í miðborg Amsterdam,“ segir í tilkynningu.
Stjórnandi á tónleikunum er Klaus Mäkelä en hann er aðeins 25 ára gamall og nú þegar orðinn einn eftirsóttasti hljómsveitarstjóri heims.
Þá hefur hann starfað sem aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Ósló frá 2020 og verður auk þess aðalhljómsveitarstjóri Orchestre de Paris frá haustinu 2022.
„Það hefur verið draumur beggja aðila að koma á tónleikum með þessari stórkostlegu hljómsveit í Hörpu, enda húsið byggt til að geta tekið á móti bestu listamönnum í heimi. Þessi draumur er nú að rætast á þessu óvenjulega afmælisári hússins. Aðeins verður um eina tónleika að ræða. Þetta einstaka tækifæri í samstarfi Hörpu og hljómsveitarinnar bauðst núna og vart hægt að hugsa sér glæsilegra innlegg í upprisu menningar- og listalífsins á Íslandi,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu.