Jólin koma snemma í ár fyrir bjóráhugafólk því J-dagurinn svokallaði verður viku fyrr á ferðinni en alla jafna. J-dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Danmörku fyrsta föstudag í nóvember síðan 1981 og hin síðustu ár einnig hér á landi. Á J-deginum hefst sala á jólabjórnum frá Tuborg á börum og veitingastöðum klukkan 20:59 og er oft mikið um dýrðir það kvöld.
Í ár verður J-dagurinn haldinn hátíðlegur föstudaginn 29. október og mun það vera vegna þess að ÁTVR hefur flýtt sölu á jólabjór um viku, rétt eins og í fyrra. Salan í Vínbúðunum hefst fimmtudaginn 4. nóvember. Þetta þýðir það að Íslendingar fá danskan jólabjór viku fyrr en Danir sjálfir í ár.
Eins og kunnugt er var J-deginum aflýst í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins. Margir munu því eflaust líta svo á að tvöföld ástæða sé til að gleðjast. Og ef það dugar ekki til má horfa til 40 ára afmælis J-dagsins í Danmörku í ár.