Liðsmönnum Bandidos vísað úr landi

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrum liðsmönnum vélhjólasamtakanna Bandidos frá Svíþjóð og Finnlandi hefur verið vísað úr landi undanfarna daga með frávísun.

Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, við mbl.is. Aðspurður segir hann að engin stór vandræði hafi fylgt frávísuninni.

Hann kveðst ekki geta sagt hvernig lögreglan vissi af komu þeirra til landsins en segir lögregluna almennt vera með eftirlit á landamærunum með þeim sem koma hingað.

Bandidos hafa margsinnis komist í kast við lögin víða um heim, þar á meðal á Norðurlöndunum, vegna skipulagðrar brotastarfsemi.

Nokkrum liðsmönnum Bandidos hefur verið vísað úr landi undanfarna daga.
Nokkrum liðsmönnum Bandidos hefur verið vísað úr landi undanfarna daga. Ljósmynd/Matt McGee

Búin að festa sig í sessi á Íslandi

Spurður hvort samtökin séu búin að festa sig í sessi á Íslandi segist Úlfar gera ráð fyrir því og bætir við að lögreglan muni áfram fylgjast með gangi mála.

Fyrir sex árum var fjórum liðsmönnum Bandidos vísað úr landi eftir að hafa komið hingað frá einu Norðurlandanna.

Ári síðar var greint frá því að vélhjólaklúbburinn Devils Choice hafi tekið upp nafnið Bad Breed og væri með tengsl við Bandidos.

Samtökin Bandidos hafa meðal annars verið bönnuð í Þýskalandi og Hollandi. Þau voru stofnuð í Texas árið 1966 og talið er að þau starfi í á þriðja tug landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert