Áhættan við hjartabólgum í kjölfar bólusetningar með bóluefni Moderna við Covid-19 kemur fram fyrstu tvær til þrjár vikurnar eftir að það heftur verið gefið. Ekki er ástæða fyrir þá sem löngu hafa verið bólusettir með bóluefninu til að hafa áhyggjur af aukaverkunum þess.
Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
„Þannig að við erum ekki að tala um það að það sé einhver áhætta fyrir fólk sem búið er að fá þetta fyrir einhverjum tíma. Fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Það er bara fyrstu dagana og vikurnar, tvær kannski þrjár, eftir að bóluefnið er gefið sem áhættan er fyrir hendi,“ segir Þórólfur.
„Þessi samnorræna rannsókn kom fram, sem Danir stóðu eiginlega fyrir, til þess að kanna þessar hjartabólgur í kjölfarið á bólusetningum, sérstaklega hjá yngra fólki. Það sem kom í ljós er að áhætta var sérstaklega mikið meiri þegar notað var bóluefni Moderna í skammti númer tvö. Okkur fannst ekki forsvaranlegt að nota það áfram á meðan við ættum nóg af öðru bóluefni,“ útskýrði Þórólfur um tildrög þess að notkun bóluefnis Moderna væri hætt hér á landi.