Mikilvæg skref tekin í tæknivæðingu heimahjúkrunar

Diljá Guðmundardóttir, sérfræðingur í heilbrigðislausnum hjá Öryggismiðstöðinni, með lyfjaskammtarann.
Diljá Guðmundardóttir, sérfræðingur í heilbrigðislausnum hjá Öryggismiðstöðinni, með lyfjaskammtarann. Ljósmynd/Bent Marinósson

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Öryggismiðstöðin hafa tekið höndum saman um innleiðingu á rafrænum lyfjaskömmturum sem notaðir verða í heimahjúkrun. Slíkar lausnir hafa um árabil verið notaðar í heimahjúkrun hjá nágrannaþjóðum okkar og þar hefur verið sýnt fram á að þær auka sveigjanleika í þjónustu á sama tíma og ánægja skjólstæðinga hefur aukist.

Diljá Guðmundardóttir, sérfræðingur í heilbrigðislausnum hjá Öryggismiðstöðinni, segir að með því að bjóða upp á rafræna lyfjaskammtara í heimahjúkrun sé verið þróa áfram þjónustu fyrir þá eldri borgara sem vilja búa áfram heima hjá sér og bæta líðan þeirra.

„Þetta er stórt og mikilvægt skref í tæknivæðingu heimahjúkrunar. Rannsóknir á sviði öldrunar hafa leitt í ljós að notkun þeirra stuðlar að auknu sjálfstæði, ásamt því að bæta lífsgæði og ánægju eldra fólks sem býr á eigin heimili. Öryggismiðstöðin hefur einblínt mjög á velferðarlausnir eins og snjallöryggi, öryggishnappinn, aðgengislausnir og fleiri velferðarúrræði sem miðar að því að gera fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili,“ segir Diljá.

Hún bætir við að um sé að ræða tilraunaverkefni þar sem 25 skjólstæðingar heimahjúkrunar munu fá lyfjaskammtarana til að byrja með. Þeim verður svo fjölgað eftir því sem þjónustan sannar gildi sitt. Unnið er af fullum krafti að undirbúningi verkefnisins og stefnt er að því að það fari af stað á næstu vikum.

Réttur einstaklingur fái rétt lyf á réttum tíma

Lyfjaskammtararnir virka þannig að lyfjarúllur eru settar í þá á einfaldan hátt og hver og einn lyfjapoki er skannaður í tækinu fyrir lyfjagjöf. Með því fær lyfjaskammtarinn upplýsingar um tímasetningu lyfjatöku, hvaða lyf eru í hverjum poka og tryggir að réttur einstaklingur fái rétt lyf, á réttum tíma.

Þegar kominn er tími á lyfjagjöf gefur lyfjaskammtarinn frá sér bæði raddmerki og hljóðmerki og aðeins þarf að ýta á einn takka til að fá lyfjapokann afhentan úr tækinu. Ef frávik verða, til dæmis að lyf eru ekki sótt á réttum tíma er lyfjaskammtarinn tengdur við stafræna heilsugátt sem gerir starfsfólki heimahjúkrunar viðvart um frávik. Þannig er hægt að bregðast strax við frávikum og sníða þjónustu að raunverulegum þörfum á hverjum tíma.

„Það hefur það sýnt sig að það eykur öryggistilfinningu einstaklinga að vita að gætt er að lyfjagjöf þeirra. Heimahjúkrun fær einnig aukinn sveigjanleika og svigrúm til að miða þjónustu enn betur að þeim skjólstæðingum sem þurfa mest á henni að halda á hverjum tíma,“ segir Diljá.

Verkefnið er að norrænni fyrirmynd en lyfjaskammtararnir koma frá norska heilbrigðistæknifyrirtækinu Dignio sem er leiðandi í Noregi í slíkum lausnum. Þar þjónustar fyrirtækið rúmlega 200 sveitarfélög, heimahjúkrun, heilsugæslur og sjúkrahús með lyfjaskammtara og fleiri heilbrigðistæknilausnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert