„Tilflutningur verkefna er ekki eitthvað sem við horfum á eða nálgumst út frá einhverri flokkapólitík heldur erum við að horfa á það hvernig stjórnarráðið virkar best sem heild og þar erum við að skoða ýmis verkefni sem hægt væri að flytja milli ráðuneyta,“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag, spurð hvort VG gæti sætt sig við það að skipulagsmál verði færð úr umhverfisráðuneytinu. Fréttablaðið fullyrti um helgina að flytja ætti meðal annars þau málefni yfir í innanríkisráðuneytið.
Katrín segir að stjórnarmyndunarviðræður haldi áfram í sama takti og hefur verið og að verið sé að ræða bæði álitamál og ágreiningsmál flokkanna þriggja.
„Við erum að fara yfir kosningaáherslur allra þessara þriggja flokka og meta hvar við getum náð saman og hvar þarf frekara samtals við, hvað er það sem ný ríkisstjórn myndi vilja gera að sínum áherslumálum, sem er auðvitað lykilatriði. Þannig að þetta samtal heldur bara áfram.“
Katrín segist hafa gert ráð fyrir í upphafi að viðræðurnar myndu taka nokkrar vikur og telur að það muni reynast rétt.
„Við höfum reynslu af því að það að hafa tiltölulega skýran stjórnarsáttmála sem er mjög hjálplegt þegar ólíkir flokkar vinna saman og við nýttum hann sem mjög góðann leiðarvísi á síðasta kjörtímabili, þannig að við byggjum svolítið á þeirri reynslu.“
Spurð hvort að ágreiningur sé milli flokkanna um ráðuneytin segir Katrín að þangað séu viðræður ekki alveg komnar.
„Þar sem við í raun og veru lögðum áherslu á það að hefja vinnu við málefnagrunninn og þegar hann lægi fyrir væri hægt að ræða og ljúka við umræðu um tilflutning verkefna, skipan ráðuneyta og svo auðvitað ráðherrastólana sjálfa, sem ég veit að allir hafa mikinn áhuga á.“