Guðmundur Felix Grétarsson, maðurinn sem skilgreinir sig sem handhafa eftir að hafa fengið grædda á sig handleggi í byrjun árs, birti í morgun myndskeið á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem hann sýnir magnaðar framfarir. Nær hann meðal annars að hreyfa fingurna en að sögn hans átti það ekki að vera möguleiki fyrr en eftir rúmt ár.
Níu mánuðir eru liðnir frá sögulegu aðgerðinni sem átti sér stað í Lyon Frakklandi í janúar fyrr á árinu. Talið var að taugarnar myndu vaxa um einn millimetra á dag inn í hendurnar og að það tæki Guðmund heilt ár að geta hreyft olnbogann. Þá var talið að það tæki um tvö ár að fá mögulega tilfinningu í fingurna.
Framfarirnar virðast þó langt á undan þeirri tímaáætlun en í myndskeiðinu sem birt var í morgun sést Guðmundur gæða sér á klementínu sem hann tók sjálfur af borðinu með fingrum sínum og smellti upp í sig.
Guðmundur getur nú lyft báðum handleggjum og er miklar framfarir að sjá í þeim hægri.
„Þann 28. maí gat ég aðeins hnyklað vöðvann. Í dag get ég gert mun meira en að hnykla aðeins vöðvana. Handleggurinn virkar þokkalega vel og styrkurinn í öxlunum og vöðvunum er allur að koma til,“ segir Guðmundur í myndskeiðinu.
Að sögn Guðmundar finnur hann nú fyrir kulda og snertingu í handleggnum þó svo að tilfinning í húðinni sé enn að koma til.