Opið þinghald í nýju nauðgunarmáli nuddara

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að þinghald í sakamáli gegn Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni, nuddara sem jafnan er kenndur við Postura, verði opið, en verjandi Jóhannesar hafði farið fram á að málið færi fram fyrir luktum dyrum.

Jóhannes var í janúar dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum á meðferðarstofu sinni á tímabilinu 2009 til 2015. Nú er um að ræða annað mál þar sem hann er ákærður fyrir nauðgun með því að hafa tvisvar í janúar 2012 haft önnur kynferðismök en samræði við konuna með því að hafa káfað á kynfærum hennar, rassi og brjósti og sett fingur í leggöng hennar, henni að óvörum. Er því um að ræða sambærilega ákæru og sett var fram í fyrra málinu. Fram kemur í úrskurðinum að Jóhannes hafi áfrýjað dómi héraðsdóms til Landsréttar í fyrra málinu og það bíði nú meðferðar þar.

Fyrra málið fór fram fyrir luktum dyrum og fram kemur í úrskurðum Landsréttar og héraðsdóms að verjandi Jóhannesar telji lögð verði fram gögn úr fyrra málinu og vitni þar mögulega kölluð til. Með því að hafa þinghald opið sé því opnað á að vitnin verði opinberuð. Þá segir verjandinn að þótt fyrra málið hafi verið lokað hafi það vakið mikla fjölmiðlaathygli og opið þinghald í þessu máli muni leiða til frekari umfjöllunar fjölmiðla.

Réttargæslumaður konunnar mótmælti hins vegar kröfunni um að málið yrði lokað og sagði engin viðhlítandi rök hafa verið færð fyrir að hafa málið lokað.

Landsréttur taldi  ástæður verjanda Jóhannesar ekki vega nógu þungt til að hafa málið lokað og staðfesti þar með úrskurð héraðsdóms sem einnig hafði talið að málið ætti að vera opið, líkt og kveðið er á um í meginreglu um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert