Segir KSÍ hafa komið sér upp rannsóknarrétti

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Guðni Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir íþróttahreyfinguna hafa komið sér upp rannsóknarrétti í Laugardal og segir hann stjórn KSÍ hafa útilokað góða leikmenn án þess að tekist hafi að sanna sekt þeirra. Spyr hann hvort ekki sér réttara að íþróttahreyfingin láti réttarvörslukerfið um rannsókn sakamála.

Þetta kemur fram í Facebook færslu Sigurðar. 

Sigurður vísar þar í frétt Morgunblaðsins sem birtist í dag þar sem greint var frá því að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefði ekki boðist sá kostur að velja nokkra lykilmenn landsliðsins vegna ásakana um ofbeldis- og kynferðisbrot.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins barst stjórn KSÍ tölvupóstur 27. september frá aðgerðarhópnum Öfgum, sem innihélt nöfn sex leikmanna ásamt dagsetningum sem meint brot eiga að hafa átt sér stað. Kemur einnig fram í fréttinni að málið sé til skoðunar hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs ÍSÍ. Á meðan eru mennirnir ekki gjaldgengir í landsliðið.

Telur Öfga hafa skrumskælt hugtakið ofbeldi

Sigurður fer ekki fögrum orðum um þessa ákvörðun og telur hann aðgerðirnar ganga of langt. 

Í færslunni kemur meðal annars fram að: „Öfgvahópurinn og einstakir meðlimir hans hafa á margan hátt skrumskælt hugtakið ofbeldi og skaðað hagsmuni þeirra, sem í raun hafa mátt þola ofbeldi. Enginn er heldur óhultur fyrir ofbeldisásökunum og öllu ber að trúa sem öfgvahópar þessir dreifa og þeir sem vilja njóta vinsælda segjast styðja þolendur ofbeldis, þó gerðir sumra þeirra sanni hið gagnstæða.

Enginn spyr þegar hávaðinn byrjar hver er þolandi í hverju tilviki fyrir sig og engum sem vill vera á vinsældavagninum dettur í hug að efast um sannleiksgildi allra þeirra frásagna um ofbeldi sem komið hefur verið á flot fyrir tilstilli Öfgva, Bleika fílsins og annarra áþekkar öfgva hópa. Af ótta við úthrópun og aftöku í bergmálshelli samfélagsmiðla bogna menn og brotna gefast upp og hætta að fara að reglum samfélagsins eða samtaka sem þeir stjórna.“

Hefur áður tjáð sig um KSÍ málið

Sigurður hefur áður verið viðloðandi KSÍ umræðuna en hann birti meðal annars lögregluskýrslu sem varðaði kæru Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur á hendur Kolbeins Sigþórssonar landsliðsmanns.
Þórhildur Gyða kærði Sigurð í kjölfarið til lögreglu, Persónuverndar og Úrskurðarnefndar lögmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert