Ferðamannaiðnaðurinn í Kosta Ríka er vel skipulagður og hæfilega miðstýrður, án þess þó að einkaaðilum sé settur stóllinn fyrir dyrnar.
Gustavo Seguro Sancho, ferðamálaráðherra landsins, segir að með hæfilegri miðstýringu og yfirvegaðri stjórnsýslu megi nýta ferðamannaiðnaðinn sem auðlind fyrir alla íbúa landsins, óháð því hvar þeir búa.
Hann segir enn fremur að mikilvægt sé að ganga ekki fram af náttúrunni, í landi þar sem ferðamenn koma helst til þess að heimsækja náttúruperlur. Þannig segir hann að stjórnvöld hefðu aðallega beitt sér í því að koma upp regluverki þar um, til þess að gæta þess að ferðamannaiðnaður Kosta ríka yxi jafnt og þétt.
„Okkur var það alveg ljóst í upphafi að við yrðum að setja strangt regluverk til þess að vöxturinn yrði hóflegur, af því þegar ferðaþjónusta miðast út frá náttúrufegurð og náttúruperlum, þá er ekki boðlegt að hafa mikinn troðning. Ef ekki, þá eyðileggjast náttúruperlurnar,“ segir Seguro Sancho við Morgunblaðið og bætir við:
„Auðvitað hefur þetta þó verið samstarf [hins opinbera og einkaaðila] sem ráðið hefur för síðustu þrjá áratugi eða svo. Við erum að sjálfsögðu jákvæð í garð uppbyggingar og erlendrar fjárfestingar en reglurnar eru alveg skýrar.“
Segura Sancho er meðal fyrirlesara á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjanesbæ á morgun, fimmtudag, er nefnist What Works Tourism. Þar verður rætt um félagslegar framfarir í tengslum við ferðaþjónustuna. Ráðstefnan er nú haldin í fimmta sinn og er á vegum Social Progress Imperative-stofnunarinnar, SPI, og ráðgjafarfyrirtækisins Cognitio, fulltrúa hennar hér á landi.
Ítarlegra viðtal við Gustavo Seguro Sancho má lesa í Morgunblaðinu á morgun.