Donkey Republic horfið af götum Reykjavíkur

Eyþór Máni Stefánsson, Katla María Unnþórsdóttir og Pétur Magnús Pétursson …
Eyþór Máni Stefánsson, Katla María Unnþórsdóttir og Pétur Magnús Pétursson stóðu að hjólaleigunni Framúrskarandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjólaleigan Donkey Republik hefur tilkynnt notendum sínum að hjól á þeirra vegum séu ekki lengur að finna í Reykjavík og virðist fyrirtækið þar með vera hætt starfsemi á landinu. 

Í tilkynningu frá fyrirtækinu til notenda sinna segir að ákveðið hafi verið, eftir vandlegar vangaveltur, að „hleypa ösnunum á grænni beitilönd“, svo ljóst er að grasið þyki grænna einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. Donkey Republic rekur hjólaleigur í yfir 60 borgum í Evrópu. 

Ekki er ljóst hvaða ástæður liggja að baki ákvörðuninni né hvort hjólin snúi einhvern tíman aftur, til dæmis þegar grænka fer í borginni að nýju. 

Donkey Republic kom hingað til lands fyrir tveimur árum, í september árið 2019, þegar deilihjólaleigan Framúrskarandi hóf rekstur undir merkjum fyrirtækisins. Þá var boðið upp á hundrað hjól á 41 hjólastandi miðsvæðis í Reykjavík.

Rafhlaupahjólaleigan Wind hætti einnig starfsemi hér á landi fyrir stuttu, rúmu ári eftir að hún hóf starfsemi hér. Gulu rafskúturnar eru því einnig horfnar af götum borgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert