Segir hlýnun mannanna verk og okkar að bregðast við

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Hnattræn hamfarahlýnun er mannanna verk og þess vegna stendur það á mannkyninu að bregðast við og snúa þróuninni jörðinni í vil. 

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í opnunarávarpi sínu á Arctic circle-ráðstefnunni um málefni Norðurslóða, sem hófst í Hörpu í morgun. 

Katrín sagði að vísindamenn væru ómyrkir í máli þegar þeir segðu að hamfarahlýnun væri staðreynd. 

Hún segir að það sé mikilvægt að eiga samtal um málefni Norðurslóða, í stað þess að fara fram með hernaðarbrölti og stríðsrekstri. Því fagnaði hún því að ráðstefnan færi fram í dag. 

„Er von til framtíðar?“ spurði Katrín í ræðu sinni. „Menn eru ábyrgir fyrir stöðunni og menn geta lagað hana. Ég er viss um að vísindin geti breytt stöðunni,“ sagði Katrín. 

Tveggja ára stjórnarformennsku í norðurskautsráðinu lauk í maímánuði á þessu ári. Katrín rifjaði upp að Ísland hafi lagt áherslu á græna nýsköpun og verndun sjávarlífkerfisins á Norðurslóðum í sinni stjórnartíð. Þar að auki var lögð áhersla á jafnrétti kynjanna, þar sem áhrif hnattrænnar hlýnunar snerti kynin á mismunandi hátt. 

Fyrsta stóra ráðstefnan

Áður er Katrín hóf ræðu sína sagði Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic cirlce og fyrrverandi forseti Íslands, nokkur orð. 

Bauð hann fólk velkomið á ráðstefnuna og vakti athygli á því að hún er sú stærsta sinnar tegundar frá því að heimsfaraldurinn skall á. 

„Gott fólk, okkur tókst þetta,“ sagði hann í upphafi ræðu sinnar og uppskar lófatak viðstaddra. 

Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arcitc Circle og fyrrverandi forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arcitc Circle og fyrrverandi forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svokölluð setningarhátíð ráðstefnunnar stendur nú yfir í Silfurbergi í Hörpu. Viðstaddir eru um 1 þúsund manns og tók Ólafur Ragnar fram að þátttakendur ráðstefnunnar væru um 1.300 talsins í ár frá meira en 50 löndum. 

Meðal þeirra sem flytja erindi í dag er ráðherra Evrópusambandsins um loftslagsmál og sjávarútveg, Virginijus Sinkevicius, Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, þingmenn Bandaríkjaþings og fleiri. Ráðstefnunni lýkur á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert