Foreldrar barns sem var lokað eitt inni í skólastofu í skóla á höfuðborgarsvæðinu hafa sent kvörtun til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Kvartað er yfir málsmeðferð barnsins og ámælisverðri framkomu starfsmanna skóla í garð þess, ásamt aðgerðaleysi skólaskrifstofu og framkomu starfsmanna sveitarfélagsins í garð foreldra, að því er Fréttablaðið greinir frá.
Barnið, sem var sett inn í svokallað „gult herbergi“ ásamt starfsmanni, hefur ekki mætt í skólann síðan í september.
Greint er frá „gula herberginu“ í verklagsreglum skólans um afleiðingar vegna ógnandi hegðunar eða ofbeldis.
Foreldrar barnsins segja að öryggi þess hafi verið ógnað. Það hafi í mörg ár glímt við sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaðahugsanir.