Finnst þeir ekki geta tryggt öryggi sjúklinga

Hjúkrunarfræðingar funda með framkvæmdastjórn Landspítalans á Hotel Natura í dag.
Hjúkrunarfræðingar funda með framkvæmdastjórn Landspítalans á Hotel Natura í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirstjórnendur Landspítalans funduðu í dag með Helgu Rósu Másdóttur deildarstjóra bráðamóttökunnar og hjúkrunarfræðingum á deildinni vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem hefur ítrekað komið upp á bráðamóttökunni.

„Okkur finnst við ekki geta tryggt öryggi sjúklinga, ekki geta veitt mannsæmandi þjónustu vegna þess að umhverfið og aðstæðurnar bjóða ekki upp á það.“

„Það var engin heildarlausn fundin á þessum fundi en samtalið var gott. Það var hvað helst væri hægt að bæta hér innanhúss, skýra ákveðnar boðleiðir og slíkt,“ segir Helga í samtali við blaðamann mbl.is.

Ítrekað búið að benda á lausnir

Helga segir að engin ein lausn sé á vandanum heldur eru þær margar og fjölda þeirra að finna fyrir utan bráðamóttökuna og Landspítalann.

„Við erum ítrekað búin að benda á þær lausnir að það þarf miklu meira til fyrir utan spítalann. Það þarf fleiri hjúkrunarrými.“

Hún gagnrýnir stjórnvöld fyrir að standa ekki við þær áætlanir um að opna fleiri hjúkrunarrými á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og bætir við að vandinn sé víðtækur.

Allt kerfið yfirfullt

„Kragasjúkrahúsin hljóta vera vanfjármögnuð því þau senda á bráðamóttökuna sjúklinga sem þau geta ekki lagt inn hjá sér vegna þess að þau eru ekki með pláss.“

„Hjúkrunarheimili senda sjúklinga á bráðamóttökuna sem ef til vill hefði verið hægt að sinna á hjúkrunarheimilinu. Hvar er læknis- og hjúkrunarþjónustan inni á hjúkrunarheimilunum? Það hlýtur að skorta á þar ef þau geta ekki sinnt sínum heimilismönnum.“

Helga segir í raun sé allt kerfið yfirfullt og það vanti starfsfólk á legudeildir spítalans.

„Sjúklingar fá ekki að leggjast inn á legudeildir þegar þeir eru tilbúnir að útskrifast héðan; þegar það er búið að greina vandann, búið að sjá um þá, setja upp fyrstu meðferð og hlúa að þeim, þá er komið að því að þeir leggjast inn á ákveðna sérgrein en komast ekki þangað þar sem það vantar starfsfólk og það liggja sjúklingar í plássunum sem eiga kannski að vera komnir í önnur úrræði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert