Sólheimajökull hopaði um 408 metra á ellefu árum

Sólheimajökull.
Sólheimajökull. Ljósmynd/Elísabeth Lind Ingólfsdóttir

Sólheimajökull í Mýrdal hefur hopað um alls ellefu metra síðasta árið. Þetta kom í ljós nú í vikunni þegar nemendur í 7. og 8. bekk Hvolsskóla á Hvolsvelli fóru á vettvang og mældu hop jökulsins, eins og hefð er fyrir í skólastarfinu að sé gert. „Þetta eru mjög lærdómsríkar ferðir og fyrir nemendur er áhugavert að sjá hvernig landið breytist stöðugt,“ segir Birna Sigurðardóttir skólastjóri í samtali við Morgunblaðið.

Nemendur 7. bekkjar Hvolsskóla við upplýsingaskilti við jökulinn.
Nemendur 7. bekkjar Hvolsskóla við upplýsingaskilti við jökulinn. Ljósmynd/Elísabeth Lind Ingólfsdóttir.

Útkoman er misjöfn milli ára

Síðastliðin ellefu ár hafa nemendur í 7. bekk Hvolsskóla farið árlega að Sólheimajökli. Mæld er fjarlægð jökulsporðs frá upplýsingaskiltinu sem fyrsti hópurinn setti niður árið 2010. Á þeim tíma voru 318 metrar frá skilti að sporði. Nú er fjarlægðin orðin 726 metrar og hopið því orðið 408 metrar, eins og GPS-mælingar sýna. Þetta er býsna mikið, en útkoman er þó annars æði misjöfn milli ára. Var 110 metrar milli 2017-2018 – samanber að frá 1931- 2010 hopaði jökullinn um 1.255 metra.

„Í fyrstu mælingaferð Hvolsskóla 2010 var jökulsporðurinn á þurru landi en nú er stórt lón þarna framan við. Því þarf að fara þetta á bát. Þar nutum við nú eins og undanfarin ár liðsinnis björgunarsveitarinnar Dagrenningar hér á Hvolsvelli,“ segir Birna skólastjóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert