Karlmaður var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barnabarni sínu fyrir Landsrétti. Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslu sinni og ítrekað skoðað ljósmyndir og myndskeið sem sýndu börn á kynferðislegan hátt.
Maðurinn hafði verið dæmdur í tveggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir héraðsdómi.
Við ákvörðun refsingar í málinu var litið til þess að maðurinn hafði gerst sekur um alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart ungu barni og nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart barninu og traust hennar og trúnað sem afi hennar.
Barnið, sem fætt er árið 2013, lýsti því með nákvæmum hætti við skýrslutöku í Barnahúsi hvernig maðurinn hefði oft kallað á hana og sagt henni að snerta getnaðarlim sinn. Hún
hefði leikið sér með eða fiktað í getnaðarlim mannsins en nánar lýsti hún því að hún hefði snert getnaðarliminn upp og niður. Þá lýsti barnið aðstæðum með skýrum hætti, svo sem hvar
háttsemin átti sér stað á heimili ákærða og ömmu hennar.
Landsréttur féllst á með ákæruvaldinu að um hafi verið að ræða greinargóða og trúverðuga lýsingu barnsins á því með hvaða hætti ákærði braut gegn henni. Þótti útilokað að sex ára barn geti lýst atvikum með þeim hætti sem barnið gerði án þess að hafa upplifað þau í reynd. Fram kemur í dóminum að brotið hafi verið gegn barninu frá fimm ára aldri, en það var nýorðið sex ára þegar það greindi frá atvikum.