Grisjað er í listaverkasafni Bændasamtaka Íslands þessa dagana. Á fjórða hundrað verk úr þess eigu eru á uppboðum sem Gallerí Fold stendur fyrir. „Þetta er eitt af stærri söfnum sem komið hafa í sölu síðustu ár,“ segir Jóhann Ágúst Hansen uppboðshaldari. Fyrsti hluti uppboðsins á verkum úr safni bænda fór fram um síðustu helgi. Þá voru sett á sölusýningu á netinu á annað hundrað verk eftir ýmsa þekkta listamenn.
Annar hluti uppboðsins stendur nú yfir þar sem kynnt eru og seld um 70 grafíkverk. Stórt safn olíu- og vatnslitamynda fer svo á uppboð síðar í haust. Þrjú sérvalin verk úr þessu safni verða síðan á perluuppboði Gallerí Foldar sem fer í loftið á föstudag og stendur fram yfir helgi. „Listaverkamarkaðurinn er líflegur nú. Verðhækkanir á sl. tveimur árum eru 25-30%,“ segir Jóhann Ágúst.
„Ég hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að þetta listaverkasafn væri í eigu samtaka okkar bænda,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. „Verkin hafa verið geymd í kjallara Hótels Sögu og nú lá beinast við að selja þau.“