Auðunn Blöndal, ávallt kallaður Auddi, leikur aðalhlutverkið í Leynilöggu, nýrri grínhasarmynd í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, sem frumsýnd verður í vikunni. Auddi sest yfir kaffibolla og leiðir blaðamann í allan sannleikann um myndina, en hún var tekin upp á tuttugu dögum fyrir mjög takmarkað fjármagn og í miðjum kórónuveirufaraldri. Útkoman er alíslensk kvikmynd sem gerist á götum borgarinnar þar sem lögreglan eltist við skúrka og er grínið aldrei langt undan.
„Svona mynd ætti að kosta um 300 milljónir en er gerð fyrir 70 milljónir. Hannes var búinn að reikna það út að hún kostar 0,03% af því sem Fast and the Furious kostar,“ segir Auddi og hrósar Hannesi fyrir að takast að láta myndina líta út eins og hún hafi verið gerð fyrir miklu meira fé.
„Þetta er íslensk Hollywood-mynd,“ segir Auddi og segir frá myndinni.
„Ég leik Bússa, hörðustu lögguna í Reykjavík, en Egill leikur hörðustu lögguna í Garðabæ. Þar er allt fínna og flottara og ég má ekki fara inn í Garðabæ af því það er ekki mitt umráðasvæði. Ég er inni í skápnum en viðurkenni svo kynhneigð mína. Grínið er tekið alla leið en inn í grínhasarinn tvinnast ástarsaga,“ segir hann.
„Svo eru bankarán í gangi en við vitum ekki hvað er að gerast því engu er stolið. Þetta er hasarmynd alla leið, tekin á Íslandi, og allir með byssur og skildi eins og í Bandaríkjunum,“ segir Auddi og segir það hafa komið þeim á óvart að myndin skyldi höfða til erlendra áhorfenda, en hún hefur verið sýnd á virtum kvikmyndahátíðum á Englandi og í Sviss og er nú á kvikmyndahátíð í Suður-Kóreu og Texas.
Í myndinni er mikið um hasaratriði og bílaeltingarleiki og þar sem fjármagnið var af skornum skammti, var ekki hægt að loka götum fyrir tökurnar.
„Eina sem var gert var að við hringdum í lögguna og sögðum þeim að við værum að fara að keyra um á Trans Am að taka upp lögguatriði fyrir bíómynd og að Auddi yrði með byssu. En svo var hringt á fullu í lögguna og tilkynnt um brjálaðan mann sem væri að skjóta úr byssu á Kringlumýrarbraut,“ segir Auddi sposkur.
„Steindi leikur einn af vondu köllunum sem dregst inn í þetta,“ segir Auddi og í þeim töluðu orðum birtist Steindi Jr., sem heitir fullu nafni Steinþór Hróar Steinþórsson, og sest hjá okkur.
„Ég leik Svavar, einnig þekktur sem Scorpion. Hann er reyndar sá eini sem kallar sig Scorpion og er í raun ekki vondur. Hann þvældist óvart inn í gengið,“ segir Steindi og hlær.
Fór eitthvað úrskeiðis í tökunum?
„Já, á fyrsta degi og í fyrstu töku þá datt tökuvélin af bílnum þegar ég bakka út. Það var grind á bílnum sem hélt vélinni og hún bara hrundi. Við héldum að allt væri ónýtt, en sem betur fer var í lagi með vélina.“
Fleira er á döfinni hjá þeim félögum því á Stöð2 verður sýndur næstu sex föstudaga fjölskylduþátturinn Stóra sviðið, stjórnað af Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur.
„Það var rosalega gaman að fá hana inn í þetta en við kynntumst henni vel í Leynilöggunni, en þar leikur hún lögreglustjórann. Hún er rosalega skemmtileg, verst að hafa ekki kynnst henni fyrr,“ segir Steindi.
„Já, samt fínt að kynnast henni núna, ég er kominn með leið á þér og fínt að kynnast einhverjum öðrum,“ segir Auddi og þeir skellihlæja vinirnir.
„Í þættinum erum við Auddi fyrirliðar og fáum alltaf til okkar sitt hvorn gestinn og svo er keppt í alls konar listum,“ segir Steindi.
Nú er Leynilögga frumsýnd í vikunni, eru þið spenntir eða stressaðir?
„Nú er ég bara spenntur. Ég var stressaður í Locarno og London en nú get ég ekki beðið. En kannski verð ég stressaður þegar ég sest í salinn,“ segir Auddi.
„Þetta er svo mikil stemmningsmynd, alvörubíó,“ segir Steindi og Auddi bætir við að tvær útgáfur verði sýndar af myndinni, fyrir tólf ára og eldri og sextán ára og eldri, en í fyrrnefndu útgáfunni hafa nokkrar blóðugar senur verið klipptar út og þannig geta fleiri ungmenni séð myndina.
Dreymir ykkur um heimsfrægð?
„Nei, en það var minn stærsti draumur í lífinu í mörg ár. Í dag segi ég nei,“ segir Auddi.
„Ég er bara sáttur í Mosfellsdalnum,“ segir Steindi.
Þannig að þið bíðið ekki eftir símtali frá Hollywood?
Þeir svara neitandi í einum kór.
„Á meðan fólk á Íslandi hringir enn í okkur erum við bara mjög sáttir.“
Ítarlegt viðtal er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins við Audda og Steinda.