Úrsagnir alþingismanna úr þingflokkum hafa verið mun algengari á síðustu árum en ætla mætti af umræðum um mál Birgis Þórarinssonar að undanförnu. Sú leið sem hann fór er hins vegar einstök í þingsögunni. Þingmaður hefur ekki áður sagt sig úr flokki, sem hann var í framboði fyrir, nokkrum dögum eftir kosningar og áður en þing er komið saman. Þá hafa ýmsir fundið að því að málsástæður hans fyrir úrsögninni hafi ekki verið trúverðugar.
Í bókinni Þingræði á Íslandi, sem nokkrir fræðimenn skrifuðu og kom út 2012, segir að úrsagnir úr þingflokkum hafi ekki verið algengar fram til um 1970. Flokkshollusta hafi verið mjög sterk lengi vel. Pólitísk vistaskipti voru þó ekki óþekkt á þessu tímabili en þau voru ætíð hluti af stærra pólitísku umróti. Þar má minna á klofninginn í Framsóknarflokknum og stofnun Bændaflokksins 1934 og klofninginn í Alþýðuflokknum og stofnun Alþýðubandalagsins 1956.
Fram kemur að frá árinu 1969 hafi hins vegar orðið algengara að menn segðu skilið við þingflokk sinn og tengist það m.a. minni flokksaga í breyttu þjóðfélagi. Úrsagnir tengdust stundum veigamiklum pólitískum breytingum í þjóðfélaginu en því til viðbótar komu úrsagnir sem voru meira persónubundnar. Á þessu tímabil hefur á fjórða tug þingmanna skipt um flokka meðan þing var starfandi. Yfirlit um þessar úrsagnir fram til 2011 er að finna í áðurnefndu riti en á vef Alþingis má finna upplýsingar um þær úrsagnir sem við hafa bæst á síðustu árum.
Í tímaröð hafa úrsagnir þingmanna úr þingflokkum verið með þessum hætti frá 1969 til 2021:
Í desember 1969 gengu Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson úr þingflokki Alþýðubandalagsins og mynduðu þingflokk Samtaka frjálslyndra og vinstri manna.
Í október 1970 gekk Karl Guðjónsson úr þingflokki Alþýðubandalagsins og starfaði utan flokka fram að þinglokum 1971.
Í desember 1972 sagði Bjarni Guðnason sig úr þingflokki Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og starfaði utan flokka fram að þinglokum árið 1974.
Í maí 1974 tilkynnti Magnús Torfi Ólafsson að hann tæki ekki þátt í störfum þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna síðustu dagana fyrir þinglok.
Í nóvember 1982 sagði Vilmundur Gylfason sig úr þingflokki Alþýðuflokksins og starfaði utan flokka fram að þinglokum 1983.
Í október 1984 tilkynnti Ellert B. Schram, Sjálfstæðisflokki, að hann hefði ákveðið að starfa sem óháður þingmaður en sagði sig ekki formlega úr þingflokki sjálfstæðismanna.
Í október 1986 sagði Kristín Kvaran sig úr þingflokki Bandalags jafnaðarmanna og gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins.
Vorið 1987 hætti Albert Guðmundsson í Sjálfstæðisflokknum og stofnaði Borgaraflokkinn. Þing var ekki starfandi þá vegna alþingiskosninga og kom því ekki til formlegrar úrsagnar hans úr þingflokki sjálfstæðismanna.
Í apríl 1989 sögðu Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson sig úr þingflokki Borgarflokksins og stofnuðu þingflokk Frjálslyndra hægrimanna. Þeir gengu í þingflokk Sjálfstæðisflokksins árið 1990.
Fyrsta úrsögn úr þingflokki á tíunda áratugnum var í september 1994 þegar Jóhanna Sigurðardóttir sagði sig úr þingflokki Alþýðuflokksins. Hún starfaði utan flokka fram að þinglokum 1995.
Í nóvember 1997 sagði Kristín Ástgeirsdóttir sig úr þingflokki Kvennalistans og starfaði utan flokka fram til september 1998.
Í september 1998 gengu Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson úr þingflokki Alþýðubandalagsins og mynduðu nýjan þingflokk óháðra ásamt Kristínu Ástgeirsdóttur.
Í október 1998 sagði Kristinn H. Gunnarsson sig úr þingflokki Alþýðubandalagsins. Hann gekk í þingflokk framsóknarmanna í desember 1998.
Þegar þingflokkur Kvennalistans var lagður niður í febrúar 1999 gekk Kristín Halldórsdóttir, þingkona flokksins, í þingflokk óháðra. Önnur þingkona flokksins, Guðný Guðbjörnsdóttir, gekk í þingflokk Samfylkingarinnar.
Frá síðustu aldamótum hafa þingmenn 19 sinnum tilkynnt úrsagnir úr þeim flokkum sem þeir voru kjörnir fyrir. Um er að ræða 18 þingmenn og eru myndirnar á síðunni af þeim.
Í mars 2003 sagði Kristján Pálsson sig úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins og starfaði utan flokka fram að þinglokum sama ár.
Í maí 2005 sagði Gunnar Örlygsson sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins og gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins.
Í nóvember 2006 sagði Valdimar Leó Friðriksson sig úr þingflokki Samfylkingarinnar. Hann starfaði fyrst utan þingflokka en gekk í Frjálslynda flokkinn í janúar 2007.
Í febrúar 2007 sagði Kristinn H. Gunnarsson sig úr þingflokki Framsóknarflokksins og fór yfir í Frjálslynda flokkinn.
Í febrúar 2009 sagði Jón Magnússon sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins. Hann starfaði fyrst utan flokka en gekk í sama mánuði í þingflokk Sjálfstæðisflokksins.
Í febrúar 2009 tilkynnti Kristinn H. Gunnarsson um úrsögn sína úr þingflokki Frjálslynda flokksins og gekk aftur í Framsóknarflokkinn.
Í mars sama ár sagði Karl V. Matthíasson sig úr þingflokki Samfylkingarinnar og gekk í þingflokk Frjálslynda flokksins.
Í ágúst 2009 sagði Þráinn Bertelsson sig úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar. Hann starfaði fyrst utan flokka en gekk síðan í september 2010 í þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, VG.
Í mars og apríl 2011 sögðu þrír þingmenn, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, sig úr þingflokki VG og störfuðu utan flokka.
Í ágúst sama ár sagði Guðmundur Steingrímsson sig úr þingflokki Framsóknarflokksins og var utan flokka.
Í október 2012 sagði Róbert Marshall sig úr þingflokki Samfylkingarinnar og gekk til liðs við þingflokk Bjartrar framtíðar.
Í janúar 2013 sagði Jón Bjarnason sig úr þingflokki VG og starfaði utan þingflokka.
Í desember 2018 sögðu Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson sig úr Flokki fólksins og voru fyrst utanflokka en gengu síðan til liðs við Miðflokkinn.
Í nóvember 2019 sagði Andrés Ingi Jónsson sig úr þingflokki VG og starfaði utan flokka en gekk síðar til liðs við Pírata. Í september 2020 fór fyrrum flokkssystir hans, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sömu leið en gekk til liðs við Samfylkinguna.
Nýjasta dæmið er svo nú á dögunum þegar Birgir Þórarinsson sagði sig úr þingflokki Miðflokksins og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.
Eins og samantektin hér að framan sýnir eru úrsagnir úr vinstri flokkum algengari en úr mið- og hægriflokkum. Úrsagnarmetið eiga Alþýðubandalagið og arftaki þess, Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Úrsagnir úr þingflokki Alþýðubandlagsins voru sex á því tímabili sem hér er til umfjöllunar og sex úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þá vekur athygli að einn þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, hefur þrívegis sagt sig úr þingflokki, fyrst úr Alþýðubandalaginu 1998, þá úr Framsóknarflokknum 2007 og loks úr Frjáslynda flokknum 2009.
Oft er talað óvirðulega um úrsagnir manna úr þingflokknum sem „flokkaflakk“. Það orð er reyndar víðtækara því fleiri en kjörnir alþingismenn færa sig á milli stjórnmálaflokka. „Flakkið“ má hins vegar telja til grundvallarréttinda í okkar lýðræðisskipulagi. Engan má neyða til að vera í ákveðnum flokki eða fylgja honum, hvorki alþingismenn né aðra. Algengt viðkvæði er að kjörnir þingmenn sem yfirgefa flokka sína séu að svíkja kjósendur sína og skuldi þeim áframhaldandi viðveru í þingflokknum. Ella eigi þeir að segja af sér. En þótt þingmenn séu vissulega kosnir af flokkslistum ber að hafa í huga ákvæði 8. greinar stjórnarskrárinnar sem segir skýrt og ákveðið að alþingismenn séu „eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum“.
Ekki hefur, svo kunnugt sé, verið gerð nein rannsókn á því hvernig þingmönnum sem skipta um flokka reiðir af í stjórnmálum í framhaldinu. Sé horft yfir lista úrsagnarmanna frá síðustu tveimur áratugum sést að flestir þeirra hafa hætt í pólitík og nokkrum verið hafnað í kosningum. Örfáum hefur þó gengið vel. Á nýkjörnu þingi sitja þrír þingmenn sem upphaflega buðu sig fram fyrir aðra flokka en þeir tilheyra nú, Ásmundur Einar Daðason, Andrés Jónsson og Birgir Þórarinsson. Er þá miðað við kosningaúrslit eftir seinni talningu í Norðvesturkjördæmi.
Frá fyrri tíð má nefna að Ásgeir Ásgeirsson var upphaflega í Framsóknarflokknum á Alþingi, gekk síðan í Alþýðuflokkinn og ekki hindraði „flokkaflakkið“ forsetakjör hans 1952. Hannibal Valdimarsson naut líka pólitískrar velgengni þótt hann væri í þremur flokkum, fyrst Alþýðuflokknum, síðan Alþýðubandalaginu og loks Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Sama er að segja um Ólaf Ragnar Grímsson sem ungur gekk í Framsóknarflokkinn og varð áhrifamaður þar, gekk síðan í Samtök frjálslyndra og vinstri manna og að lokum í Alþýðubandalagið. Fyrir þann flokk var hann kosinn á þing og varð síðar formaður flokksins. Loks má nefna að Jóhanna Sigurðardóttir, sem sagði sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka, varð forsætisráðherra í vinstri stjórninni 2009.
Yfirlitið hér að framan sýnir að sjaldgæfara er að konur yfirgefi þingflokka sína en karlar. Það er þó ekki alveg marktækt því konur hafa lengst af verið mun færri á þingi en karlar. Fyrst kvenna til að setjast á þing var Ingibjörg H. Bjarnason sem bauð sig fram á vegum Kvennalistans eldri í landskjörinu sumarið 1922. Glæsileg stytta af henni er fyrir framan Alþingishúsið. Þar sem hún var ein kvennanna á framboðslistanum á þingi taldist hún ekki þingflokkur og var utanflokka í fyrstu. Snemma árs 1924 myndaði hópur alþingismanna Íhaldsflokkinn, forvera Sjálfstæðisflokksins, og gekk Ingibjörg í þann þingflokk.