Samfara hinni miklu uppbyggingu á Hafnartorgi og við Austurhöfn í Reykjavík urðu til tvær nýjar göngugötur á svæðinu, Kolagata og Reykjastræti.
Kolagatan var fullkláruð 2019 en nyrsti hluti Reykjastrætis hefur verið lokaður til þessa vegna uppbyggingar lúxushótelsins The Reykjavík Edition. En nú er þeim framkvæmdum að ljúka og búið að opna strætið til fulls.
Við það hefur opnast spennandi gönguleið frá Hafnarstræti alla leið að Hörpu. Hins vegar er ólokið við að setja upp gönguljós við Geirsgötuna, svo fólk þarf að hafa varann á vegna bílaumferðar. Unnið er af fullum krafti við byggingu höfuðstöðva Landsbankans og því hafa vinnupallar tekið yfir hluta af Reykjastrætinu.
Nafnanefnd Reykjavíkur kom með tillögur um nöfnin. Þar sem Kolagata liggur var kolum skipað á land á árum áður. Nafnið Reykjastræti vísar til heitis höfuðborgar Íslands.