Sér fyrir endann á mygluostaskorti

Camembert-ostur er meðal þeirra hvítmygluosta sem hafa víða verið ófáanlegir …
Camembert-ostur er meðal þeirra hvítmygluosta sem hafa víða verið ófáanlegir undanfarið.

Undanfarið hefur víða orðið vart við skort á hefðbundnum hvítmygluostum sem Mjólkursamsalan framleiðir. Hafa verslanir enda ekki getað pantað slíka osta í um þrjár vikur og hafa hillur margra þeirra því tæmst, hvort sem um er að ræða af Camembert, Brie osti, Gullosti eða öðrum af þeim fjölmörgu hvítmygluostum sem MS framleiðir.

Nú sér hins vegar fyrir endann á þessu tímabili og á þriðjudaginn er líklegt að hvítmygluosturinn komi aftur fyrir sjónir neytenda.

Ástæðan fyrir þessum skorti er galli sem kom upp í nýjum framleiðslubúnaði við uppsetningu í starfsstöð Mjólkursamsölunnar í Búðardal í síðasta mánuði. Í kjölfarið gaf MS út að 20-30 daga bið yrði þangað til hægt yrði að panta ostana aftur, en fyrir margar tegundir er það einmitt á mánudaginn og yrði þá osturinn kominn í sölu á þriðjudaginn.

Aðalsteinn Magnússon, sölustjóri hjá MS, segir í samtali við mbl.is að í síðasta mánuði hafi menn uppgötvað að ostarnir sem komu úr nýju tækjunum hafi ekki verið í samræmi við það sem átti að venjast. „En gallinn fannst og nú hefur verið framleitt alla daga í kjölfarið til að fylla upp í gatið,“ segir hann og segir að varan sem sé núna að verða klár sé eins og áður var.

Ástæðan fyrir því að biðtíminn eftir vörunni er svona langur er að sögn Aðalsteins að með mygluosta þá þurfa þeir að þroskast í nokkrar vikur eftir framleiðslu. Það hafi tekist nokkuð fljótt að koma framleiðslunni í lag eftir að gallinn kom upp, en eftir það þurfi að bíða í um þrjár vikur þangað til ostarnir séu orðnir rétt þroskaðir.

Spurður hvort þessi töf muni hafa áhrif á jólaosta segir Aðalsteinn svo ekki vera. Jólaostarnir séu þegar komnir í framleiðslu og verði í búðum á réttum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka