Ansi líklegt er að snjóinn sem féll á höfuðborgarsvæðinu í nótt taki upp fljótlega eftir hádegi þegar hitastig hækki og að þá fari að rigna. Því er ólíklegt að hálka verði á götum þegar hvessa fer seinni partinn á suðvestur horninu, en Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir á Suðurlandi, Suðvesturlandi og á Vestfjörðum í dag og í nótt.
Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að áfram verði þó snjókoma víða um land, meðal annars á fjallvegum og norðantil á landinu. Hann segir ólíklegt að viðvörunin í dag valdi miklum samgöngutruflunum á suðvestur horninu, en þó sé möguleiki á því á Hellisheiði þar sem muni snjóa í dag.
Versta veðrið verður þó á Suðurlandi; undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli og í Öræfum. Eiríkur segir að þar megi gera ráð fyrir stöðugum vindi upp í 25 m/s þar sem verst lætur og hviðum yfir 30 m/s. Segir hann að þar gætu vel orðið samgöngutruflanir. „Það er ekki ólíklegt miðað við veðurhæðina, sér í lagi framan af degi við Reynisfjall. Þar mun líklega snjóa,“ segir hann.
Seinni partinn og í nótt er gert ráð fyrir talsverðri úrkomu á Austfjörðum. Eiríkur segir að fyrst um sinn verði það snjókoma, en í nótt og fyrramálið muni hlýna og þá fari að rigna. Spurður út í hvort sú rigning sé eitthvað sem hafa þurfi áhyggjur af á þekktum skriðusvæðum segir Eiríkur að Veðurstofan hafi augu á því hvernig ástandið verður í kringum þessi helstu skriðusvæði, en að ekkert hafi verið ákveðið varðandi breytingar á viðbúnaðarstigum eða öðru álíka.