Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokksins og fyrrverandi sýslumaður í Vestmannaeyjum, segir bundið í kosningalög hvernig talning atkvæða eigi að fara fram og að annmarkar hafi verið á þeirri framkvæmd í Norðvesturkjördæmi þegar yfirkjörstjórn hóf að telja atkvæði á ný eftir að hafa kynnt lokatölur fyrr um morguninn, daginn eftir kosningar.
Karl Gauti var kynntur sem uppbótarþingmaður eftir talningu atkvæða að loknum þingkosningum í síðasta mánuði. Eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi breyttist það hins vegar og Karl Gauti var kominn út.
Sjálfur hefur Karl Gauti reynslu af talningu frá árum sínum sem sýslumaður, en hann var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Titlaði hann sig sem vafaþingmann þegar þáttastjórnandi spurði hann hvernig réttast væri að kynna hann í ljósi stöðunnar eftir kosningar.
Sagði hann að það væri bundið í lög hvernig talning færi fram. Meðal annars ættu að vera innsiglaðir kassar sem talið væri upp úr og magn þeirra sannreynt. Hann tók fram að yfir kosninganóttina kæmu oft fyrir mistök og þá þyrfti talningarfólk að telja sig til baka. Það væri ástæða þess að talning tefðist oft langt fram á morgun. Hins vegar væri ekkert til sem héti endurtalning eftir að lokatölur væru kynntar.
Sagði Karl Gauti að mikið ergelsi væri þegar illa gengi að finna villurnar, en hingað til hefði það alltaf tekist. Hins vegar væru engin dæmi um að eftir að lokatölur væru kynntar að það væri endurtalið. Sagði hann einnig að allt tal um endurtalningu ætti sér ekki stoð í lögum. Karl Gauti tók þó fram að undir ákveðnum kringumstæðum væri hægt að telja aftur, en það þyrfti að gilda um það sömu reglur og hefðbundna talningu.
Benti hann jafnframt á að engar athugasemdir hefðu borist frá umboðsmönnum flokkanna eða kjörstjórn sjálfri í Borgarnesi um morguninn áður en fólk fór heim. „Menn eru ánægðir og gefa út lokatölur,“ sagði Karl Gauti. Hins vegar hafi það breyst um morguninn þegar kjörstjórn hafi komið aftur í hús. „Bara 1-2 menn sem taka þá ákvörðun,“ sagði Karl Gauti og bætti við að það væri ákveðið og strangt lögboðið ferli sem þyrfti að fara af stað áður en það væri gert. Meðal annars að auglýsa talninguna og skipa fólk og svo telja fyrir opnum dyrum. Auk þess hafi atkvæðin þurft að vera innsigluð í millitíðinni. Jafnframt segir hann að bannað sé að færri en tveir séu innan um óinnsigluð kjörgögn.
Sagði Karl Gauti það vera anda laganna að reyna að koma í veg fyrir aðstæður sem þessar. „Leyfir ekkert kæruleysi,“ sagði hann. Jafnframt bendir Karl Gauti á að ef ágreiningur komi upp eigi að bóka það. Slíkt hafi ekki verið gert þegar lokatölur hafi verið gefnar út um morguninn.