Í morgun vöknuðu borgarbúar við snæviþakta jörð og því fer fólk að huga að dekkjaskiptum, þar sem varhugavert er að vera á sumardekkjum langt inn í veturinn.
Ólafur Konráð Benediktsson, framkvæmdastjóri Nesdekks, segir að bókanir í dekkjaskipti hafi byrjað fyrir nokkrum vikum þegar hálkan lét á sér kræla.
„Þetta hefur verið mjög stöðugt síðan. Þetta tímabil er yfirleitt svona tveir mánuðir, þetta byrjar við fyrstu hálkuna og það fer bara eftir því hvenær hún kemur,“ segir Ólafur í samtali við blaðamann mbl.is.
Ólafur bætir við að á þessu háannatímabili skipti verkstæðið sem hann rekur á dekkjum á rúmlega tíu þúsund bílum og býst við að á næstu árum gæti viðskiptavinum fjölgað, Ólafur rekur eitt af sjö útibúum fyrirtækisins.
„Við erum alltaf að stækka og stækka, Nesdekk er orðið flottasta merkið svo við erum alltaf að auka við okkur jafnt og þétt.“
Hann telur þó að snjórinn í morgun hafi ekki varið nógu lengi til þess að fólk fari að drífa sig í dekkjaskipti.
„Ég held að snjórinn þurfi að halda sér í sólarhring til þess að flestir fari koma, snjórinn í morgun er ekki það síðasta sem mun ýta fólki af stað. “