Standa vörð um aukagjald fyrir prestsþjónustu

Ekki eru allir prestar á eitt sáttir með tillögu um …
Ekki eru allir prestar á eitt sáttir með tillögu um niðurfellingu aukagjalds fyrir guðsþjónustur, sem prestar innheimta sjálfir. Eggert Jóhannesson

Þrír prestar hafa sent inn umsögn um tillögu, sem leggja á fram á komandi Kirkjuþingi, þar sem þeir mótmæla fyrirhugaðri niðurfellingu greiðslna vegna prestþjónustu eftir gjaldskrá. 

Það þýðir að þeir leggist gegn því að prestum verði ekki greitt aukalega fyrir að sinna guðsþjónustum á borð við hjónavígslur, útfarir og skírnir. 

Mikill munur er á vinsældum presta þegar slíkar athafnir eru bókaðar og eru dæmi um að einhverjir prestar fái talsvert fleiri beiðnir um að sinna guðsþjónustum en aðrir. 

"Vígð þjónusta kirkjunnar á ávallt að vera grundvölluð á kristilegum kærleika og sem mest án hindrana fyrir fólk. Það er tímaskekkja og fráhrindandi ásýnd kirkjulegrar þjónustu að prestur sem þjónar fólki á gleði- og sorgarstundum sendi viðkomandi síðan reikning vegna þjónustu sinnar. Þetta dregur mjög úr trúverðugleika kirkjulegrar þjónustu," segir í greinargerð umræddrar tillögu, sem lögð er fram af Stefáni Magnússyni, Anný Ingimarsdóttur, Árnýju Herbertsdóttur og Margréti Eggertsdóttur.

Vill ekki að kjör presta séu skert

Í umsögn Þorgeirs Arasonar, sóknarprests í Egilsstaðaprestakalli, segir meðal annars að hann sé samþykkur því að fella eigi niður gjaldskrá Þjóðkirkjunnar til framtíðar, en hann er þó ósáttur að engin kjarabót fyrir presta sé fyrirhuguð.

„Með þessari tillögu er einfaldlega gert ráð fyrir að þessi hluti af launakjörum presta sé felldur niður og hvergi getið um að nokkur önnur kjarauppbót komi í staðinn. Ekki veit ég um neina starfsstétt með snefil af sjálfsvirðingu sem myndi fella sig við slíkt,“ segir meðal annars í umsögn Þorgeirs.

Aukagjald hafi ekki með kristileg gildi að gera

Arnaldur A. Bárðarson, kjaramálafulltrúi Prestafélags Íslands, tekur í sama streng í sinni umsögn. Þar veltir hann því fyrir sér hvort yfir höfuð sé fyrir hendi lagastoð að Kirkjuþing ákvarði nokkuð um aukaverkagreiðslur presta. 

„Þá má að lokum nefna þau rök. Að í okkar samfélagi er greitt fyrir flest, bæði vörukaup og þjónustu. Það virðist oft þannig að sú þjónusta sem ekki er metin til fjár sé einskisvirði. Ekki er ástæða til að tala niður þjónustu kirkjunnar eða gjaldfella hana. Þá er margt fólk þeirrar gerðar að vilja greiða fyrir sig og skulda engum neitt. Að greiða presti hóflega þóknun fyrir þjónustu er því mörgum kærkomin viðurkenning, - þakklætisvottur til prests fyrir vel veitta þjónustu,“ segir Arnaldur í lok umsagnar sinnar.

Til viðbótar við þá Arnald og Þorgeir, segir Sigurður Grétar Sigurðsson í Útskálaprestakalli, að hann fallist ekki á breytingartillöguna. Vísar hann í umsögn sinni til sömu orða greinargerðar og gert var hér að ofan og segir:

„Prestsþjónusta er launuð atvinna okkar sem henni sinnum. Kristilegur kærleikur er ekkert minni í þjónustunni þó prestur fái laun fyrir. Launin hafa verið byggð upp með ákveðnum hætti í mjög langan tíma, annars vegar föst laun frá launagreiðanda og hins vegar þóknun vegna prestsverka sem prestur innheimtir sjálfur. Það er blaut tuska í andlitið að slengja svona tillögu fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert